Fótbolti

Sjálfsmark skaut Wales í 8-liða úrslit | Sjáðu markið

Skömmu eftir að boltinn hafnaði í netinu. Hal Robson-Kanu, framherji Wales, er himinlifandi en sömu sögu er ekki að segja af Gareth McAuley og Michael McGovern, leikmönnum N-Írlands.
Skömmu eftir að boltinn hafnaði í netinu. Hal Robson-Kanu, framherji Wales, er himinlifandi en sömu sögu er ekki að segja af Gareth McAuley og Michael McGovern, leikmönnum N-Írlands. Vísir/EPA
Ævintýri Gareths Bale og félaga í velska landsliðinu heldur áfram en þeir eru komnir í 8-liða úrslit á EM 2016 eftir 1-0 sigur á N-Írlandi á Parc des Princes í dag.

Bale skoraði í öllum leikjunum í riðlakeppninni en komst ekki á blað í dag. Real Madrid-maðurinn átti þó risastóran þátt í eina marki leiksins.

Á 75. mínútu átti Bale hættulega fyrirgjöf frá vinstri inn á vítateiginn og Gareth McAuley, miðvörðurinn reyndi, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Annars gerðist fátt markvert í leiknum. Norður-Írum tókst að halda Bale og Aaron Ramsey niðri í fyrri hálfleik fyrir utan eitt skipti þegar sá síðarnefndi skoraði af stuttu færi. Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu.

Norður-Írar ógnuðu aðallega í föstum leikatriðum en gerðu lítið í opnum leik eins og áður á mótinu.

Bale var nálægt því að skora sitt fjórða mark á EM á 58. mínútu en Michael McGovern, besti leikmaður N-Írlands á mótinu, varði aukaspyrnu hans vel.

Bale var þó ekki hættur og bjó sigurmarkið til þegar stundarfjórðungur var til leiksloka eins og áður sagði.

Wales mætir annað hvort Belgíu eða Ungverjalandi í 8-liða úrslitunum í Lille á föstudaginn.

McAuley setur boltann í eigið mark



Fleiri fréttir

Sjá meira


×