Viðskipti erlent

Sjálfkeyrandi rúgbrauð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
T1 og I.D. Buzz sem mun verða sjálfstýrður rafmagnsbíll.
T1 og I.D. Buzz sem mun verða sjálfstýrður rafmagnsbíll. Mynd/Volkswagen
Bílarisinn Volkswagen kynnti hönnun nýrrar útgáfu rúgbrauðsins víðfræga á bílasýningunni North American International Auto Show í gær. Volkswagen T1, rúgbrauðið svokallaða, er sendiferðabíll sem gerði garðinn frægan á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Nýja útgáfan kallast I.D. Buzz og er nútímalegri uppfærsla. Ef bíllinn verður framleiddur mun hann ganga fyrir rafmagni og verða sjálfstýrður.

Bíllinn á að komast um 435 kílómetra á fullri hleðslu. Þá verða framsætin þannig útbúin að þegar bíllinn styðst við sjálfstýringu sé hægt að snúa þeim aftur á við svo farþegarnir geti setið augliti til auglitis.

I.D. Buzz er enn á hugmyndastigi svo ekki er víst hvort hann verði nokkurn tímann framleiddur. Hins vegar hefur Volkswagen heitið því að selja milljón mismunandi rafbíla árlega þar til 2025. Því gætu áform um nýtt rúgbrauð orðið að veruleika. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×