Erlent

Sjaldgæfur blaðamannafundur N-Kóreu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ji Jae Ryong undir vökulum augum Kim Il-Sung og Kim Jong-Il
Ji Jae Ryong undir vökulum augum Kim Il-Sung og Kim Jong-Il Vísir/AP
Sendiherra Norður Kóreu í Kína hélt blaðamannafund í sendiráði sínu í dag þar sem hann sagði að N-Kórea hefði engan áhuga á afvopnunarsamkomulagi í ætt við það sem Íran gerði nýverið, einfaldlega vegna þess að N-Kórea væri nú þegar kjarnorkuvopnaríki. Blaðamannafundir af þessu tagi eru sjaldgæfir af hálfu N-Kóreu.

Ji Jae Ryong, sendiherra, tjáði viðstöddum blaðamönnum að samkomulag Írana um kjarnorkumál væri afrek sem náðst hefði með löngum viðræðum en ekki mætti líkja stöðu Íran í kjarnorkumálum við stöðu N-Kóreu vegna þess að ríkið væri „kjarnorkuvopnaríki bæði að nafni til sem og í raunveruleika“.

„Við höfum engan áhuga á viðræðum ætlaðar til þess að fá okkur til að fara í einhliða frystingu eða upprætingu á kjarnorkuvopnaeign okkar“.

Kjarnorkuáætlun N-Kóreu er stórfellt svæðisbundið vandamál sem ógnar stöðugleika svæðisins. Alþjóðlegum viðræðum um afvopnun á kjarnorkuvopnum N-Kóreu hefur lítið miðað áfram síðan 2009.

Embættismenn N-Kóreu boðuðu til blaðamannafundarins í dag til þess að ítreka þá afstöðu sína að „fjandsamleg stefna“ Bandaríkjanna gagnvart N-Kóreu sé aðalorsök þeirrar spennu sem ríkir á Kóreuskaga.

Bandaríkin hafa frá lokum Kóreustríðsins staðsett hersveitir í S-Kóreu til þess að fæla N-Kóreu frá árásum. Kóreustríðinu lauk með vopnahléi sem átti að vera tímabundið þangað til aðilar gætu sæst á friðarsamninga. Því markmiði hefur enn ekki verið náð.


Tengdar fréttir

Kalla Barack Obama "apa“

Þjóðaröryggisráð Norður Kóreu segir Bandaríkin hafa lokað fyrir netaðgang þjóðarinnar.

Norður-Kórea hótar Bandaríkjunum

„Orðrómar um netárás Norður-Kóreu var búinn til af leppstjórn Suður-Kóreu,“ segir í tilkynningu frá Pyonyang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×