Íslenski boltinn

Sjáið viðtalið við Tryggva: Ég þarf að fara að fullorðnast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar tvö í kvöld þar sem hann fór yfir atburði helgarinnar með Sighvati Jónssyni.

ÍBV leysti Tryggva Guðmundsson frá störfum sem aðstoðarþjálfara liðsins í Pepsi-deild karla í dag en hann fékk ekki að stýra liðinu á móti Blikum í gær eftir að hafa mætt fullur á æfingu liðsins á laugardaginn, daginn fyrir leik.

Ingi Sigurðsson stýrði ÍBV-liðinu í leiknum þar sem liðið vann Breiðablik 2-0 og varð um leið fyrsta liðið til að vinna Kópavogsliðið í Pepsi-deildinni í sumar.

Tryggvi Guðmundsson er markahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla á Íslandi en hann er einnig markahæsti leikmaður ÍBV í deild þeirra bestu.  Sighvatur bað Tryggva um að segja frá sinni hlið á þessu máli.

„Ég mæti á æfingu á laugardaginn sem er dagurinn fyrir leik. Ég var þá búinn að fá mér marga bjóra og svoleiðis er það nú bara," sagði Tryggvi.

Sighvatur spurði Tryggva hvort að það hafi verið strax ákveðið að hálfu ÍBV að þetta hafi verið brot á samningi.

„Já, það er alveg klárt. Ég viðurkenndi þetta strax og við kláruðum þetta bara í bróðerni," segir Tryggvi en var þetta ekki harkaleg ákvörðun að hálfu félagsins.

„Nei alls ekki. Þetta er fyrst og fremst og aðallega stór mistök hjá mér. Klúbburinn gerir það eina rétta," segir Tryggvi en hvað tekur nú við.

„Það er ekkert fótbolta tengt og meira tengt sjálfum mér og hausnum á mér. Þetta er spurning um vellíðan og vanlíðan. Ég þarf að vinna með sjálfum mér og hætta að vera svona góður við sjálfan mig. Ég þarf að taka til í hausnum á mér og fara að fullorðnast," segir Tryggvi en er meðferð á næsta leiti.

„Það má vel vera að það sé inn í myndinni," segir Tryggvi.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem svona gerist hjá Tryggva hjá ÍBV en var þetta eitthvað sem menn höfðu með þegar samningur hans við ÍBV var settur saman.

„Miðað við það sem á undan er gengið þá sömdum við þannig og eðlilega. Ef eitthvað svona myndi koma upp þá yrði tekið á því. Það hefur verið gert," sagði Tryggvi.

Það er hægt að sjá allt viðtalið við Tryggva hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×