Körfubolti

Sjáðu þristana sjö hjá Kára sem gerðu hann að íþróttamanni vikunnar | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Jónsson spilaði sinn besta leik fyrir Drexel um helgina.
Kári Jónsson spilaði sinn besta leik fyrir Drexel um helgina. mynd/drexel
Kári Jónsson fór á kostum með liði sínu Drexel í efstu deild bandaríska háskólakörfuboltans um síðustu helgi en hann var stigahæstur í sigurleik gegn High Point með 25 stig.

Þessi mikla skytta úr Hafnarfirðinum, sem var einn besti leikmaður Domino's-deildarinnar áður en hann fór út til náms, hitti úr sjö af tólf þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Frammistaða Kára í leiknum skilaði honum titlinum íþróttamaður vikunnar hjá Drexel-háskólanum í karlaflokki en hann er þriðji stigahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með ellefu stig að meðaltali í leik. Þá er hann að skjóta 47.8 prósent fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hann er að bæta sig verulega í skotnýtingu fyrir utan línuna en í 30 leikjum með Haukum á síðustu leiktíð sem endaði í tapi fyrir KR í lokaúrslitum Domino's-deildarinnar var Kári að skjóta 35,4 prósent fyrir utan þriggja stiga línuna.

Þristarnir sjö hjá Kára hjálpuðu Drexel við að landa sigri í leiknum en hans menn höfðu betur gegn High Point, 78-72, og eru nú búnir að vinan fjóra og tapa fjórum í byrjun tímabilsins.

Þristana sjö má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×