Handbolti

Sjáðu pungsparkið sem breytti Hafnarfjarðarslagnum | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adam og Einar Rafn komu mikið við sögu í Hafnarfjarðarslagnum í gærkvöldi.
Adam og Einar Rafn komu mikið við sögu í Hafnarfjarðarslagnum í gærkvöldi. vísir/ernir
Haukar unnu sinn níunda leik í röð þegar þeir sóttu FH heim í stórleik 16. umferðar Olís-deildar karla í gær.

Leikurinn var frábær skemmtun og á endanum munaði bara einu marki á liðunum. Lokatölur 29-30, Haukum í vil.

Mikil harka hljóp í leikinn í seinni hálfleik og á 39. mínútu fékk Haukamaðurinn Adam Haukur Baumruk að líta rauða spjaldið fyrir viðskipti sín við FH-inginn Einar Rafn Eiðsson.

Einar Rafn braut á Adam og saman skullu þeir í gólfið. Er Adam reyndi að standa upp virtist hann sparka í Einar Rafn sem lá óvígur eftir. Eftir leikinn sagði Einar Rafn að Adam hefði sparkað í punginn á sér.

Þessu fylgdu nokkrar stimpingar áður en Sigurður Hjörtur Þrastarson, sem dæmdi leikinn ásamt Heimi Erni Árnasyni, sýndi Adam rauða spjaldið. Heimir Örn gaf svo Einari Rafni tveggja mínútna brottvísun fyrir upphaflega brotið.

Atvikið má sjá á vef RÚV, eða með því að smella hér.

Rauða spjaldið virtist kveikja í Haukum sem breyttu stöðunni úr 19-18 í 21-25. Þessi sjö mínútna kafli eftir rauða spjaldið, sem Haukar unnu 6-2, reyndist FH-ingum dýr á endanum.

Þeir náðu þó forystunni, 29-28, þegar þrjár mínútur voru eftir en Haukar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og tryggðu sér sigurinn.

Þetta var síðasti leikur liðanna fyrir HM-fríið. Haukar eru í 2. sæti deildarinnar með 22 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Aftureldingar. FH er hins vegar í 3. sæti með 18 stig.


Tengdar fréttir

Fjórföld ástæða fyrir sigurhring Hauka

Fjórir leikmenn Hauka hafa skorað fimm mörk eða fleiri í leik í átta leikja sigurgöngu liðsins í Olís-deild karla. Haukaliðið getur lokað hringnum með sigri á nágrönnum sínum í Kaplakrika í kvöld en Haukaliðið væri þá búið að




Fleiri fréttir

Sjá meira


×