Lífið

Sjáðu markmiðin þeirra - ertu klár í slaginn?

Ellý Ármanns skrifar
Við spurðum nokkra þjóðþekkta einstaklinga um markmiðin þeirra í Meistaramánuði. Það stóð ekki á svörunum. Hvaða markmið hefur þú sett þér í október?

Karl Berndsen.
Með blöðkur á fullri ferð

Karl Berndsen hárgreiðslu- og förðunarmeistari

„Allir mánuðir hjá mér framveigis verða Meistaramánuðir. Nú lifum við lífinu til fullnustu. Ég er núna að mastera skriðsund sem ég hef alltaf þráð að geta. Ég hef alltaf verið hálfdrukknaður á miðri leið en nú er kallinn kominn með blöðkur og kominn á fulla ferð. Ég ætla að ná því markmiði í mánuðinum og fullkomna það.“

Arnar Grant og viti menn - vinur hans Ívar líka.
Leysa missætti og fyrirgefa

Arnar Grant líkamsræktarfrömuður 

„Í október sem og aðra mánuði er ég með skýr markmið bæði fyrir sjálfan mig og viðskiptavini mína þegar kemur að líkamsrækt og mataræði.  Í Meistaramánuði er þó tilvalið tækifæri til þess að bæta um betur og setja sér eitt til þrjú aukamarkmið.  Sjálfur ætla ég að búa til nýjan heilsudrykk á hverjum degi, skrá uppskriftirnar og gefa þeim einkunn."

„Þá er ég kominn með uppskriftabók sem á eftir að nýtast mér vel aðra mánuði ársins. Ekki má heldur gleyma „mýkri“ markmiðunum sem geta t.d. falið í sér að sýna meiri hlýju í garð náungans og hlúa betur að fjölskyldu og vinum. Að gera sitt besta til þess að leysa missætti og fyrirgefa. Að vera tilfinningalega opinn hvort sem um ræðir að sýna tilfinningar eða leyfa sér að finna þær meira sjálfur. Það er alltaf jákvætt þegar fólk ákveður að taka sér tak hvort heldur líkamlega eða andlega."

„Ég aðhyllist þó ávallt hinn gullna meðalveg og legg áherslu á að fólk sníði sér stakk eftir vexti og setji sér raunhæf markmið. Það er svo miklu skemmtilegra að ná markmiðinu heldur en ekki. Auðvitað má þetta samt ekki vera of auðvelt. Þá gætum við bara öll ákveðið að liggja lengur uppi í sófa á kvöldin og borða meiri ís.“

Birta Líf Björnsdóttir hefur vit á að setja sér skýr markmið.
Ætlar að komast í splitt

Birgitta Líf Björnsdóttir flugfreyja hjá Icelandair

„Markmiðin mín í meistaramánuðinum eru að borða hollara en til að ná því ætla ég að skipuleggja máltíðirnar betur og hafa BARA einn nammidag í viku, hann á það til að teygjast yfir helgina. Vakna snemma alla daga og til að ná því ætla ég einfaldlega að fara fyrr í háttinn svo að ég sé minna þreytt þegar ég vakna."

„Ég vil geta hlaupið 10 km auðveldlega og til að ná því ætla ég að vera dugleg að fara í hóptíma sem auka þol, einsog Tabata og Fitness Form, og hlaupa á brettinu á eftir. Svo ætla ég að komast aftur í splitt eftir tognun. Til að ná því ætla ég að vera duglegri að fara í Hot Yoga og teygja betur á eftir dansæfingar.“

Steinunn Ólína má eiga það að hún er fyndin.
Aðeins meira súrefni til heilans

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona

„Ég ætla að borða heimsmeistarköku Sollu þegar mér dettur í hug enda viðeigandi í meistaramánuði en láta önnur sætindi alveg í friði. Ég ætla líka að sleppa því að borða brauð og hveitivörur. Ég ætla að einsetja mér að vera fjarska góð við þá sem ég umgengst heima og heiman, láta ekki skapið hlaupa með mig í gönur og fara í göngutúra nokkrum sinnum í viku."

„Mín meistaramarkmið eru ekkert flókin en með því móti tekst mér kannski að ná markmiðum mínum sem eru aukinn agi, ofurlítið þyngdartap, enn betri samskipti við alla sem ég umgengst og aðeins meira súrefni til heilans. Mér þykir þegar ég hugsa um það vænst um heilann af öllum líffærunum svo ég hugsa að ég reyni að halda áfram að tileinka mér eitthvað nýtt og læra eitthvað fallegt utanað þegar ég kem því við.“

Ólafía ætlar að skipuleggja sig betur.
Minnka sælgætisátið

Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR

„Markmiðin mín í Meistaramánuðinum eru eftirfarandi; vera skipulagðari svo að ég nái að komast betur yfir öll verkefnin mín, taka frá sérstakan tíma til að lesa, bóka fund með sjálfri mér þar sem ég get skipulagt vikuna. Hitta fólkið mitt oftar en þau gefa mér aukinn kraft og gleði til að sinna starfinu vel. Svo ekki sé minnst á hreyfingu – göngutúrar eru þar efst á blaði - og minnka sælgætisátið - á það til að detta í gotterísskálina á kvöldin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×