Handbolti

Sjáðu jöfnunarmarkið sem FH-ingar eru brjálaðir yfir | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Garðar B. Sigurjónsson skoraði jöfnunarmarkið umdeilda.
Garðar B. Sigurjónsson skoraði jöfnunarmarkið umdeilda. vísir/eyþór
FH-ingar eru afar ósáttir við jöfnunarmark Stjörnunnar í leik liðanna í TM-höllinni í 11. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Þegar um 15 sekúndur voru eftir, í stöðunni 21-22 fyrir FH, tók Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, leikhlé.

Að því loknu fóru Garðbæingar í sókn. FH-vörnin var þétt fyrir og þegar fjórar sekúndur voru eftir var dæmt aukakast á Halldór Inga Jónasson.

Garðar B. Sigurjónsson, línumaður Stjörnunnar, tók boltann og skaut að marki þegar tvær sekúndur voru eftir. Boltinn fór af vörn FH og yfir Ágúst Elí Björgvinsson í marki gestanna.

Anton Gylfi Pálsson og Þorleifur Árni Björnsson, dómarar leiksins, dæmdu markið gott og gilt þrátt fyrir að aukakastið hafi ekki verið tekið á réttum stað.

FH-ingar voru afar ósáttir við að markið fengi að standa og töldu framkvæmd aukakastsins ólöglega. Máli sínu til stuðnings bentu þeir á að aukakastið hafi verið tekið á vitlausum stað og að leikmenn Stjörnunnar hefðu verið fyrir innan punktalínuna þegar það var tekið.

Þetta umdeilda atvik má sjá á vef SportTV, eða með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×