Sport

Sjáðu hlægilega misheppnaða Rabóna-spyrnu í NFL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Boswell reynir umrædda spyrnu sem misheppnaðist hörmulega.
Chris Boswell reynir umrædda spyrnu sem misheppnaðist hörmulega. Vísir/Getty
Sparkarar hafa verið mikið í fréttum NFL-deildarinnar á núverandi tímabili enda margir verið einstaklega mistækir.

Margir þeirra hafa klikkað á auðveldum spyrnum, annað hvort fyrir aukastigi eða í stuttum vallarmarkstilraunum, sem hefur reynst dýrkeypt fyrir lið þeirra.

En Chris Boswell, sparkari Pittsburgh Steelers, átti líklega óvæntustu tilþrif tímabilsins er hann reyndi svokallaða Rabóna-spyrnu þegar hann ætlaði að sparka í boltann, líkt og sjá má í myndbandinu neðst í fréttinni.

Steelers mætti erkifjendum sínum í Baltimore Ravens um helgina en var að elta allan leikinn. Ben Roethlisberger og félagar hans náðu þó að minnka muninn í sjö stig þegar tæp mínúta var eftir af leiknum. Snertimark hefði dugað til að jafna metinn en til þess hefði Steelers þurft að vinna boltann strax til baka.

Í slíkum aðstæðum reynir sparkari liðsins sem var að skora að sparka stutta spyrnu til þess að reyna að fá boltann aftur, í stað þess að sparka boltanum til andstæðingsins eins og vanalegt er.

Boltinn þarf þó að fara minnst tíu jarda en eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi hitti Boswell boltann afar illa og hann hreyfðist nánast ekki úr stað. Boswell sparkaði svo öðru sinni í boltann sem er ólöglegt og var því Baltimore umsvifalaust dæmdur boltinn.

Þar með lauk leiknum en annars eins endir á leik í NFL-deildinni hefur vart sést.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×