Íslenski boltinn

Sjáðu Gumma Ben gera það gott fyrir bæði KR og Val | Upphitunarmyndband

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stórveldin KR og Valur hafa spilað marga skemmtilega leiki í gegnum tíðina, en þau mætast í Vesturbænum í kvöld.

Garðar Örn Arnarson, ofur-pródúsent 365, klippti saman nokkra skemmtilega leiki Vals og KR undanfarin ár sem og bikarúrslitin frá því í fyrra þar sem Valsmenn stóðu uppi sem sigurvegarar.

Nokkrir leikjanna í gegnum tíðanna hafa verið verulega athyglisverðir. Guðmundur Benediktsson, aðstoðarþjálfari KR í dag, kemur mikið við sögu í myndbandinu, bæði sem leikmaður Vals og KR.

Guðmundur skorar meðal annars eitt marka KR í einum leiknum, en síðar í myndbandinu leggur hann upp mörk fyrir Val. Guðmundur verður á hliðarlínunni í kvöld.

Bjarni Guðjónsson, aðalþjálfari KR, kemur einnig við sögu í myndbandinu, en hann fær rautt spjald fyrir brot á Helga Sigurðssyni í leik liðanna 2009.

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í sama leik 2009, en hann bætti það upp með stoðsendingu síðar í leiknum.

Selfoss skaut KR úr bikarnum í vikunni og er því mikil pressa á Vesturbæjarstórveldinu að komast aftur á sigurbraut í kvöld.

Valsmönnum hefur gengið afar vel gegn KR á þeirra heimavelli undanfarin ár, en þeir hafa unnið sex af síðustu tíu leikjum og einungis tapað einum.

Þú getur horft á þetta skemmtilega myndband í sjónvarpsglugganum hér efst í fréttinni.

Leikirnir í myndbandinu:

2009: KR - Valur 3-4

2013: KR - Valur 3-1

2007: KR - Valur 0-3

2015: Valur - KR 2-0


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×