Sport

Sjáðu eina ótrúlegustu senu í sögu Super Bowl sem leiddi til sigurs Patriots

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

New England Patriots varð í nótt Super Bowl-meistari í fimmta sinn þegar liðið lagði Atlanta Falcons, 34-28, í fyrsta framlengda úrslitaleik NFL-deildarinnar frá upphafi.

Leikurinn var algjör sturlun og endurkoma New England söguleg en liðið lenti mest 28-3 undir. Tom Brady tók þá til sinna ráða og skoraði 25 stig í röð á sama tíma og Atlanta-liðið brotnaði niður.

New England var 28-20 undir þegar Brady og félagar fóru í síðustu sóknina þar sem þeir þurftu að skora snertimark og tvö aukastig. Í þeirri sókn leit eitt ótrúlegasta grip í sögu Super Bowl dagsins ljó.

Þegar tvær mínútur og 28 sekúndur voru eftir kastaði Tom Brady boltanum í áttina að útherjanum Julian Edelman en það var Robert Alford, bakvörður Falcons, sem snerti boltann fyrstur. Þrír leikmenn Atlanta stukku svo í áttina að boltanum á móti Edelman einum.

Boltinn fór aldrei í grasið og á einhvern ótrúlegan hátt tókst Edelman að nýta sér það og grípa boltann á sturlaðan hátt. Þetta kerfi varð til þess að sókn New England hélt áfram og endaði liðið á því að jafna leikinn og vinna hann í framlengingu.

Það var erfitt að sjá hvort þetta væri gripinn bolti eða ekki. Dómarinn vildi meina að svo væri á vellinum en Atlanta véfengdi úrskurðun dómarans og lét skoða þetta í myndavélabásnum. Eftir smá jappl, jaml og fuður stóð kerfið og New England hélt áfram í sókn.

Þetta ótrúlega atvik má sjá í spilaranum hér að ofan í lýsingu Tómasar Þórs Þórðarsonar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×