Handbolti

Sjáðu brotið sem sendi Gísla Þorgeir í sturtu: „Ég segi tvær mínútur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi FH, var rekinn af velli á 22. mínútu í fyrsta undanúrslitaleik Selfoss og FH í Olís-deild karla í handbolta í gærkvöldi fyrir brot á Árna Steini Steinþórssyni.

Gísli rak fótinn í Árna þegar að hann var að fara inn úr horninu í dauðafæri og eftir smá samtal dómaranna Svavars Péturssonar og Sigurðar Þrastarsonar fékk ungstirnið að líta rauða spjaldið.

Án Gísla tapaði FH leiknum í framlengingu en liðið var 28-24 þegar að lítið var eftir en fékk á sig fjögur mörk í röð og varð svo undir í framlengingunni.

Sebastian Alexandersson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar sem sendi beint út frá Vallaskóla á Selfossi í gærkvöldi, var ósammála dómnum og fannst tveggja mínútna brottrekstur nóg.

„Ég segi tvær mínútur svona þegar að maður sér þetta aftur. Gísli styttir sér vissulega örlítið leið í gegnum teiginn en mér finnst ekki hægt að segja að Gísli búi til alla snertinguna,“ sagði Sebastian en Gunnar Berg Viktorsson var á því að um mjög hættulegt brot væri að ræða.

„Hann stígur fyrir hann með löppinni. Það er alveg 100 prósent. Árni er að fara að hoppa en svo kemur hné sem að hann sér ekki og hamrar hann niður. Þetta er hættulegt brot,“ sagði Gunnar Berg.

Brotið, spjaldið og umræðuna í hálfleik um rauða spjaldið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×