Fótbolti

Sjáðu algjörlega misheppnað Panenka-víti hjá leikmanni Venesúela | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Venesúelski miðjumaðurinn Luis Manuel Seijas hugsar sig eflaust tvisvar um áður en hann reynir að taka svokallaða Paneneka-vítaspyrnu aftur.

Venesúela mætti Argentínu í 8-liða úrslitum Copa América, Suður-Ameríkukeppninnar, í gærkvöldi. Argentínumenn byrjuðu leikinn betur og eftir tæpan hálftíma var staðan orðin 2-0, þeim í vil, eftir tvö mörk frá Gonzalo Higuaín.

En það opnaðist möguleiki fyrir Venesúelamenn á 42. mínútu þegar Sergio Romero, markvörður Argentínu, braut klaufalega á Josef Martínez innan vítateigs. Mexíkóski dómarinn Roberto García Orozco var ekki í neinum vafa og benti strax á vítapunktinn.

Seijas steig fram og ætlaði að vera aðeins of svalur. Venesúelamaðurinn lyfti boltanum laflaust á mitt markið en vandamálið var að Romero beið bara rólegur, stóð kyrr í miðju markinu og greip vítið.

Henry Birgir Gunnarsson, sem lýsti leiknum á Stöð 2 Sport, gat ekki annað en hlegið að þessari misheppnuðu vítaspyrnu Seijas eins og heyra má í myndbandinu hér að ofan.

Argentína vann leikinn 4-1 og er komin áfram í undanúrslit þar sem liðið mætir Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×