Innlent

Sitkalúsafaraldur á höfuðborgarsvæðinu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Grenitré eru mjög ljót víða í höfuðborginni, sem er vegna sitkalúsar en lúsin sýgur safa úr barri trjánna, barrnálarnar verða gular og detta síðan af. Ekki þykir skynsamlegt að úða eitri á trén.

Víða má sjá ljót grenitré á höfuðborgarsvæðinu sem má rekja til sitkalúsar en á öðrum stöðum eru fín tré, sem hafa ekki fengið neina lús á sig. Trén við Miklubrautina eru sérstaklega ljót en þau eru 50 til 60 ára. En hvað gerir lúsin ?

„Sitkalús er lítið dýr, sem er ekki nema tveir millimetrar á lengd, sem fer á barrið, sérstaklega á eldri nálum. Hún stingur munnrananum sínu inn í barrið, þá myndast eitrun og plantan bregst við með því að reyna að loka nálunum og á endanum drepst þetta og fellur niður,“ segir Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslufulltrúi Garðyrkjufélags Íslands.

Kristinn er þeirra skoðunar að það þurfi að fella trén við Miklubrautina en þau eru á milli 50 og 60 ára gömul.

„Þau verða aldrei aldrei falleg úr þessu og ég get ekki annað séð en að heilu og hálfu greinarnar séu bara steindauðar þó að tréð séð í heild lifandi og efstu topparnir eru grænir. Ef ég ætti þessi tré myndi ég fella þau,“ bætir Kristinn við.

Trén eru mikið lýti í umhverfinu.

„Þetta er ekki fallegt, þetta eru það sem allir eru að tala um, það helsta sem maður gerir ef maður keyrir hér um er að loka augunum,“ segir Kristinn.

En kemur eiturúðun til greina ?

„Eiturúðun á svona stór tré má setja spurningarmerki við. Nú eru hæstu tré á Íslandi 26 metrar, það er eins og að standa á áttundu eða níundu hæð í blokk. Ef við ætlum að fara að úða útisvistarsvæði og úða tré sem standa  við götu og annað, þá erum við bara komin í eiturhernað, það segir sig bara sjálft,“ segir Kristinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×