Erlent

Sitja um byssumann í Las Vegas

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sérsveitarmenn við rútuna þar sem byssumaðurinn hélt sig.
Sérsveitarmenn við rútuna þar sem byssumaðurinn hélt sig. Twitter
Einn er látinn og annar alvarlega særður eftir skotárás á einni aðalgötu Las Vegas í kvöld.

Talið er að byssumaður hafi hleypt af einu skoti í kyrrstæðri rútu með fyrrgreindum afleiðingum. Götunni var lokað að hluta meðan sérsveitarmenn lögreglu umkringdu bifreiðina. Þegar þetta er skrifað reynir sáttamiðlari á vegum lögreglunnar að sannfæra manninn um að yfirgefa rútuna.

Árásin átti sér stað á götu sem sem alla jafna er kölluð „The Strip“ þar sem mörg af stærstu hótelum og spilavítum Las Vegas er að finna.

Gestum nærliggjandi hótela hefur verið ráðlagt að halda sig á herbergjum sínum meðan unnið er að lausn málsins.

Fyrr í dag frömdu þrír grímuklæddir byssumenn rán í Rolex-verslun í Bellagio-hótelinu skammt frá vettvangi skotárásarinnar. Erlendir miðlar tengja þessa atburði saman í umfjöllun sinni af árásinni en ekki er vitað með vissu á þessari stundu hvort þeir tengist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×