Tónlist

Sísý Ey í samstarf við Andy Butler

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hljómsveitin Sísý Ey er á leið til London.
Hljómsveitin Sísý Ey er á leið til London. MYND/Úr einkasafni
„Við kynntumst Andy Butler í Hercules and Love Affair þegar hann kom til landsins til þess að spila á eins árs afmæli skemmtistaðarins Dolly,“ segir Elín Eyþórsdóttir, meðlimur í stuðsveitinni Sísý Ey, en hljómsveitin er á leið til Lundúna að spila með hljómsveit Andys sem nýtur mikilla vinsælda í Evrópu og þótt víðar væri leitað.

„Það var tónlistarmaðurinn og sameiginlegur vinur okkar John Grant sem kynnti okkur almennilega fyrir honum,“ heldur Elín áfram, og systir hennar, Sigríður, sem er einnig meðlimur í sveitinni, tekur í sama streng.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu, en við komum til með að gefa út smáskífu hjá plötufyrirtæki Andys, Mr. International, í nóvember. Þá spilum við á tónleikunum, á tónleikastaðnum Oval Space. Svo er stefnan sett á að spila á fleiri stöðum í Evrópu í framhaldinu.“

Sísý Ey samanstendur af systrunum Elínu, Sigríði og Elísabetu Eyþórsdætrum, ásamt plötusnúðnum Friðfinni Sigurðssyni, betur þekktum sem DJ Oculus. Þær vöktu fyrst athygli með smellnum Ain‘t got nobody, sumarið 2012, en hafa síðan spilað á fjölmörgum tónleikum á Íslandi og víðar, meðal annars á raftónlistarhátíðinni Sonar í Barselóna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×