Enski boltinn

Sissoko orðaður við Arsenal - dýrkaði Vieira í æsku

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Moussa Sissoko.
Moussa Sissoko. vísir/getty
Franski miðjumaðurinn Moussa Sissoko ákvað að draga ekkert úr orðrómi þess efnis að hann gæti farið til Arsenal í sumar.

Þessi 25 ára gamli leikmaður sem kom til Newcastle frá Toulouse í janúar 2013 fyrir 1,8 milljónir punda er farinn að vekja áhuga stærri liða í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool var orðað við Sissoko í sumar, en undanfarnar vikur hefur Arsene Wenger verið sagður íhuga að fá Frakkann til liðs við sig til að styrkja miðsvæðið.

Arsenal náði ekki að semja við miðjumann í sumar og þar sem Jack Wilshere, Mikel Arteta og Aaron Ramsey hafa verið meiddir á leiktíðinni gæti Wenger neyðst til að senda Newcastle kauptilboð í janúar.

„Þegar ég var ungur var Arsenal uppáhaldsliðið mitt. Átrúnaðargoðið mitt Patrick Vieira spilaði með liðinu og mér hefur alltaf líkað vel við það,“ sagði Sissoko í viðtali við Standard Sport.

„Ég tek samt ekkert mark á orðrómum. Umboðsmaður minn sér um þetta. Ef eitthvað gerist þá gerist það,“ segir Moussa Sissoko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×