Lífið

Sirkustjaldið Jökla fer í tímabundið frí

Anna Ágústsdóttir skrifar
Sirkuslistamennirnir sjá sjálfir um að setja tjaldið upp og taka það niður.
Sirkuslistamennirnir sjá sjálfir um að setja tjaldið upp og taka það niður. Vísir/Andri Marinó
„Við eigum eftir að heimsækja fullt af stöðum í kringum Ísland. Jökla er komin til að vera,“ segir Margrét Erla Maack sem ásamt félögum sínum í Sirkusi Íslands var að ljúka við að taka sirkustjaldið Jöklu niður á Klambratúni. Viðburðaríkt sýningasumar er að baki en Jökla hefur ferðast víða með sirkushópnum. Alls hafa 104 sýningar verið settar upp í tjaldinu frá því í júní.

Ekki liggur fyrir hversu margir hafa sótt sýningarnar en uppselt var alla laugardaga og sunnudaga í sumar. Samkvæmt Margréti Erlu var fjöldi sýningargesta einhvers staðar á milli fjölda þátttakenda í Reykjavíkurmaraþoninu og gesta á tónleikum Justins Timberlake.

Uppsetning tjaldsins er nokkuð tímafrek en það tekur tvo vinnudaga að koma því upp og á bilinu níu til tólf klukkustundir tekur að taka það niður.

Tjaldið er á leið í geymslu til TvG-Zimsen, samstarfsaðila Sirkus Íslands, en Margrét Erla útilokar ekki að Jökla verði tekin fram aftur á næstu mánuðum. Veður og frost í jörðu eru þættir sem geta haft áhrif á uppsetningu tjaldsins og hafa þarf það í huga áður en mögulegt er að plana sýningar í til dæmis desember.

„Við þurfum bara að redda okkur hitara,“ segir Margrét sem virðist ekki láta margt stoppa sig. Þótt Jökla sé komin í tímabundið frí er ekkert frí fram undan hjá Sirkus Íslands en í vetur verður meðal annars boðið upp á sirkusskóla og námskeið fyrir börn og fullorðna ásamt því að koma fram við hin ýmsu tilefni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×