Lífið

Sirkusinn er fyrir alla

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Fagna afmæli Sigríður Nanna er ritstjóri og einn af stofnendum veftímaritsins Sirkústjaldsins.
Fagna afmæli Sigríður Nanna er ritstjóri og einn af stofnendum veftímaritsins Sirkústjaldsins. Vísir/GVA
„Vefritið er rekið af meistaranemum við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands með áherslu á grasrótarumfjöllun og leik með formið,“ segir Sigríður Nanna Gunnarsdóttir, ritstjóri og einn af stofnendum veftímaritsins Sirkústjaldsins sem fagnar eins árs afmæli í dag.

Hún segir hugmyndina að tímaritinu hafa kviknað vegna þess hversu lítið var um menningarumfjöllun á Íslandi og nemendur því ákveðið að taka málin í sínar hendur og fá þeir vinnuna við tímaritið metna til eininga í háskólanum.

Í kvöld verður afmælinu fagnað á Loft Hosteli. „Við ætlum að taka það fyrir sem við tökum fyrir í tímaritinu, við erum sirkustjald og þar kemur öll menning saman,“ segir Sigríður Nanna glöð í bragði og bætir við: „Sirkusinn er fyrir alla og menningin á líka að vera fyrir alla.“

Fjölbreytt dagskrá verður í tilefni afmælisins og mun myndlistarkonan Þórdís Erla Zoëga sýna myndlist, meðlimir í félagi meistaranema í ritlist, Blekfjelagsins, flytja upplestur og tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon spilar nokkur lög. „Við erum voða hress, það verða líka hátíðarræður og kennarar sem koma og stíga á stokk,“ segir Sigríður Nanna að lokum.

Herlegheitin hefjast klukkan átta á Loft Hosteli, Bankastræti 7, og eru léttar veitingar í boði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×