Enski boltinn

Sir Alex Ferguson: Ég valdi ekki Moyes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson og David Moyes.
Sir Alex Ferguson og David Moyes. Vísir/AFP
Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, hefur nú hreinsað hendur sínar af því að hafa séð einn um það að velja David Moyes sem eftirmann sinn á Old Trafford.

David Moyes entist ekki fyrsta tímabilið sem knattspyrnustjóri United því hann var látinn fara í apríl eftir mjög dapurt gengi á tímabilinu.

Enskir fréttamiðlar skrifuðu mikið um það á sínum tíma að Sir Alex Ferguson hafi sjálfur valið David Moyes en gamli knattspyrnustjórinn neitar því í nýrri uppfærslu á ævisögu sinni.

Sir Alex Ferguson segir að Manchester United hafi valið David Moyes eftir viðurkenndum aðferðum og vísar því föðurhúsanna að hann hafi valið Moyes einsamall.

„Ég valdi ekki Moyes einn. Við gerðum allt á réttan hátt, hljóðlega, vandlega og fagmannlega," skrifar Ferguson meðal annars í nýja kaflanum í bókinni sinni og vísar til þess að Manchester United hafi leitað markvisst og fagmannlega af besta manninum í starfið.

Ferguson segir að pressan á Moyes hafi verið gríðarlega mikil og að ástandið hafi kallað fram minningar frá níunda áratugnum þegar verst gekk hjá honum sem stjóri Manchester United.

„Eftir því sem gengið versnaði þá varð hvert tap eins og hamarshögg fyrir hann," sagði Sir Alex Ferguson en Sky Sport hefur komist í nýjustu útgáfu ævisögu hans og fjallar um hana hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×