Innlent

Sinubruninn á Snæfellsnesi ógnaði sumarbústað

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bruninn kom upp í flóa suður af bænum Fáskrúðabakka í Eyja- og Miklaholtshreppi.
Bruninn kom upp í flóa suður af bænum Fáskrúðabakka í Eyja- og Miklaholtshreppi. Vísir/Loftmyndir
Slökkviliðið í Borgarbyggð hafði í nógu að snúast seinnipartinn í gær við að slökkva stóran sinubruna sem upp kom í flóa suður af bænum Fáskrúðabakka á Snæfellsnesi.

„Við fengum útkall hérna í Borgarnesi um kaffileytið,“ segir Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð. „Þegar við komum voru bændur byrjaðir að berjast við þetta. Þetta var barátta sem stóð alveg fram yfir miðnætti og er svona farið að sjást fyrir endann á.“

Hann segir að trúlega hafi álft eða gæs flogið á háspennulínu yfir flóanum, því rafmagn fór af svæðinu stuttu áður en reykurinn frá brunanum uppgötvaðist. Um tíma ógnaði bruninn sumarbústað á svæðinu en slökkviliði tókst að brenna í kringum hann og halda brunanum frá húsinu. Bjarni segir að aðstæður hafi verið mjög erfiðar.

„Þetta er alltaf erfitt í svona landi,“ segir hann. „Þetta eru miklir mýrarflákar  og botnlaust alveg. Það er ekki hægt að fara með neinum tækjum, þetta er bara fótgangandi hernaður. Þetta var mikill reykur og við urðum að notast við einhverjar reykgrímur. Þetta eru mjög slæmar aðstæður til að vinna í.“

Erfitt er að mæta það hve stórt svæði brann en Bjarni telur að það hafi verið margir tugir hektara. Um þrjátíu manns tóku í heildina þátt í að slökkva eldinn. Bjarni segir að enn logi einhverjar glæður á svæðinu, en þó ekkert sem hætta stafi af.

„Nú vonum við bara að það fari að rigna sem fyrst,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×