Innlent

Sindri gæti orðið frjáls ferða sinna ef áframhaldandi gæsluvarðhald verður ekki samþykkt

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sindri Þór Stefánsson sem strauk frá fangelsinu Sogni gæti orðið frjáls ferða sinna ef dómstólar í Hollandi samþykkja ekki áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum. Þetta segir lögmaður Sindra en Sindri var úrskurðaður í eins dags gæsluvarðhald í Amsterdam í dag. Sindri Þór var handtekinn á sunnudagskvöldið á bar í götunni Damrak, sem sem liggur á milli konungshallarinnar og lestarstöðvarinnar í miðborg Amsterdam, eftir að hollensku lögreglunni barst ábending frá vegfaranda. Hann var úrskurðaður í sólarhrings gæsluvarðhald í dag.

„Nú er staðan sú að dómari hefur frestað að taka ákvörðun um gæsluvarðhald úti, til að mér skilst klukkan ellefu á morgun, og á þeim tímapunkti verður hann beðinn um afstöðu bæði til gæsluvarðhaldsins og svo til framsalsins, þannig það er bara beðið eftir því,“ segir Þorgils Þorgilsson, lögmaður Sindra Þórs.

Sindri strauk frá Sogni aðfaranótt þriðjudagsins 17. apríl og komst með flugi til Stokkhólms. Tveir aðrir voru með honum í för þegar hann var loks handtekinn í Amsterdam í fyrrakvöld. Aðspurður hvort hann viti hvaða leið Sindri fór frá Stokkhólmi til Amsterdam kveðst Þorgils ekki hafa neinar staðfestar upplýsingar um það. Spurður hverjir hafi verið með honum í för þegar hann var handtekinn, kýs hann ekki að tjá sig.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu verður farið fram á framsal í þessari viku. Ef Sindri samþykkir framsalið má ætla að hann komi aftur til landsins innan tíu daga.

„Ef hann hinsvegar hafnar framsali þá fer af stað „diplómatískur prósess“ sem að tekur mun lengri tíma,“ segir Þorgils. Ef svo fer að dómari fallist ekki á áframhaldandi gæsluvarðhald í Hollandi verður Sindri frjáls ferða sinna að sögn Þorgils, en hugsanlega geti dómstólar þó úrskurðað hann í farbann.

Væntanlega kemur því í ljós á morgun hvort Sindri verði úrskurðaður í nítján daga gæsluvarðhald til viðbótar í Hollandi en gildandi gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Sindra á Íslandi, rennur út klukkan fjögur á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir

Yfirlýsing frá Sindra: „Ég kem fljótlega“

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu að Sogni og flúði land aðfaranótt þriðjudags, sendi Fréttablaðinu yfirlýsingu, þar sem hann útskýrir sína hlið máls.

Sindri handtekinn klukkan átta í gærkvöldi

Strokufanginn Sindri Þór Stefánsson var handtekinn um klukkan átta að staðartíma í gærkvöldi í miðborg Amsterdam, eða klukkan sex að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×