Innlent

Sindri gæti hafa farið víða

Birgir Olgeirsson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Sindri Þór Stefánsson í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Sindri Þór Stefánsson í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lögreglan á Suðurnesjum.
Enn hefur ekki tekist að hafa hendur í hári Sindra Þórs Stefánssonar sem strauk úr fangelsinu að Sogni aðfaranótt þriðjudags. Þá hefur ekki tekist að hafa uppi á leigubílstjóra sem ók Sindra að flugstöðinni í Keflavík en lögreglu hafa þó borist nokkrar ábendingar sem eru til skoðunar.

Sindri Þór pantaði flugmiða til Stokkhólms klukkustund áður en hann strauk af Sogni aðfaranótt þriðjudags. Líkt og kunnugt er tókst Sindra að yfirgefa landið nokkrum klukkustundum eftir að hann flúði fangelsið. Ekkert hefur til hans spurst síðan hann lenti á Arlanda-flugvelli í Stokkhólmi á þriðjudag að sögn Gunnars Schram, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Við höfum ekkert staðfest um það hvar hann sé, í hvaða landi, hvort hann sé í Svíþjóð ennþá og á þessum tíma sem er liðinn þá gæti hann náttúrlega komið sér víða,“ segir Gunnar.

Greint var frá því í gær að Sindri hafi komið að flugstöðinni með leigubíl, gráum skutbíl frá Skoda. Þrátt fyrir ýmsar ábendingar hefur ekki tekist að hafa uppi á bílstjóranum og er aðkoma hans að málinu því ekki þekkt sem stendur.

„Okkur hafa borist ábendingar vegna þess sem að við erum akkúrat að skoða eins og staðan er núna. Það hefur ekkert gefið okkur ennþá,“ segir Gunnar.

Alls hafa fjórir verið yfirheyrðir í tengslum við leitina að Sindra en af þeim hafa tveir réttarstöðu sakbornings, grunaðir um aðild að flótta Sindra. Þeir voru látnir lausir eftir yfirheyrslur.

Að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun um frekari yfirheyrslur, að sögn Gunnars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×