Innlent

Síminn stoppaði ekki hjá Ellimálaráði

Freyr Bjarnason skrifar
Þórey Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Ellimálaráðs Reykjavíkurprófastsdæma.
Þórey Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Ellimálaráðs Reykjavíkurprófastsdæma. Fréttablaðið/Valli
Eftir að hafa ráðfært sig við biskup Íslands hefur Ríkisútvarpið ákveðið að hafa áfram á dagskrá að morgni morgunbæn og orð dagsins á Rás 1. Í þættinum verður flutt stutt hugvekja og bæn. Nýr þáttur um trúarleg málefni verður einnig á dagskrá á sunnudagskvöldum.

Mikla athygli vakti í síðustu viku þegar ákveðið var að hætta lestri bæna á RÚV. Mótmælin komu úr ýmsum áttum og m.a. var stofnuð Facebook-mótmælasíða þar sem um 6.500 manns höfðu skráð sig í gær.

Sömuleiðis stoppaði síminn ekki hjá Ellimálaráði Reykjavíkurprófastdæma eftir að tilkynnt var að lestri bænanna yrði hætt. Þar kvörtuðu eldri borgarar sáran yfir ákvörðuninni og óskuðu eftir því að ráðið gripi í taumana. Sú varð einmitt raunin árið 2007 þegar Ríkisútvarpið ætlaði að taka þáttinn Orð kvöldsins af dagskrá. Þá fundaði þáverandi framkvæmdastjóri ráðsins með Páli Magnússyni, þáverandi útvarpsstjóra, og á endanum var ákvörðunin dregin til baka.

Þórey Dögg Jónsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri, tók við starfinu fyrir ári en forveri hennar hafði sinnt því í fimmtán ár. „Það rigndi yfir hana beiðnum 2007 og hún sá sig knúna til að gera eitthvað í málinu. Hún safnaði undirskriftum og fór með hóp í RÚV,“ segir Þórey Dögg aðspurð og bætir við að síminn hafi ekki stoppað hjá þeim báðum undanfarna daga.

Ellimálaráð ætlaði að funda í gær og til greina kom að óska eftir fundi með Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra rétt eins og gert var fyrir sjö árum. Ljóst er að engin þörf verður á því í þetta sinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×