Innlent

Sílastofninn virðist ekki ná sér á strik

Þótt krían hafi oft verið til ama eru menn farnir að sakna þess að sjá ekki meira af henni í Flatey.
Þótt krían hafi oft verið til ama eru menn farnir að sakna þess að sjá ekki meira af henni í Flatey. Mynd/GVA
Fuglalíf í Flatey Magnús Jónsson segist reka upp stór augu þegar hann sér lunda.
Fyrstu vísbendingar úr rannsóknarleiðangri á Breiðafirði benda ekki til þess að sílastofninn sé að ná sér á strik. Þetta segir Valur Bogason líffræðingur og einn leiðangursmanna. Hríðminnkandi sílastofn kemur illa niður á varpi sjófugla við sunnan- og vestanvert landið, til dæmis er fuglalíf í Flatey með daufasta móti að sögn íbúa þar.

Öðru máli gegnir um ástandið við norðanvert landið, segir Erpur Snær Hansen líffræðingur enda er nóg um loðnu á þeim svæðum.

Magnús Jónsson, íbúi í Flatey, segir hríðversnandi afkomu sjófugla ekki fara framhjá heimamönnum.

„Það er alveg ótrúlegt að horfa upp á þetta, þetta er nánast alveg dautt hérna,“ segir hann. „Maður er farinn að reka upp stór augu þegar maður sér lunda hérna,“ bætir hann við.

Þessi sílaskortur hefur ekki eingöngu áhrif á fjölda fuglanna í Flatey heldur einnig hegðun þeirra. „Það er svo lítið æti fyrir mávinn að hafa í sjónum að hann er farinn að haga sér eins og við Tjörnina fyrir sunnan. Hann er farinn að sækja í matarbita uppi á landi, hann er til dæmis farinn að leita í hænsnafóðrið há mér,“ segir Magnús.

Hann segir enn fremur að kríuvarpið virðist hafa farið forgörðum að mestu þó eitthvað sé krían að taka við sér eftir að það hitnaði í veðri í síðustu viku. Þó sé það spurning hvort ungarnir verði orðnir nógu stálpaðir þegar kemur að því að hefja sig til flugs yfir hafið.

Erpur Snær segir að lægð í lundavarpi haldist oft í hendur við hlýnandi sjó. Til dæmis hafi verulega dregið úr lundafjöldanum í kringum 1930 en þá var sjávarhiti í hámarki. Valur segir að skýringin á fækkun síla kunni að vera sambland af umhverfisáhrifum, eins og hækkandi sjávarhita, og arðráni.

jse@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×