Körfubolti

Sigurgangan heldur áfram hjá Kanínunum hans Arnars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson og Craig Pedersen stýra hér íslenska landsliðinu.
Arnar Guðjónsson og Craig Pedersen stýra hér íslenska landsliðinu. Vísir/Andri Marinó
Arnar Guðjónsson og lærisveinar hans í Svendborg Rabbits unnu fimmtán stiga útisigur á SISU, 104-89, í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Svendborg Rabbits liðið hefur þar með unnið þrjá leiki í röð og ennfremur sex af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni.

Axel Kárason spilaði tæpar 24 mínútur og var með 6 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar á þeim.

Bandaríkjamaðurinn Brandon Rozzell var allt í öllu með 33 stig og 6 stoðsendingar.

Svendborg Rabbits vann fyrsta leikhlutann 29-26 og var síðan komið ellefu stigum yfir í hálfleik, 55-44. SISU beit aðeins frá sér í seinni hálfleiknum og munurinn var kominn niður í sjö stig í lokaleikhlutanum. Leikmenn Svendborg gáfu þá aftur í og kláruðu leikinn sannfærandi.

Arnar Guðjónsson tók við Kanínunum af íslenska landsliðsþjálfaranum Craig Pedersen í nóvember. Liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum undir hans stjórn en hefur síðan unnið sjö af níu leikjum.

Eina tap liðsins frá því í byrjun desember var eins stigs tap á útivelli á móti Næstved.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×