Innlent

Sigurður Ingi mættur á kjördæmisþing Framsóknarflokksins

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannson, sem sækist eftir formannsembættinu hjá Framsókn, á fundinum í morgun ásamt Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingkonu flokksins.
Sigurður Ingi Jóhannson, sem sækist eftir formannsembættinu hjá Framsókn, á fundinum í morgun ásamt Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingkonu flokksins. Vísir/Jóhann K
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra er mættur á kjördæmisþing Framsóknar í Suðurkjördæmi, sem fram fer á Hótel Selfossi í dag. Þingið hófst klukkan ellefu og þar mun framboðslisti flokksins í kjördæminu vera staðfestur. Sigurður Ingi tilkynnti í gær að hann hyggst bjóða sig fram til formanns flokksins gegn sitjandi formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. 

Í samtali við fréttastofu í gær sagði Sigurður Ingi að síðustu vikur hefðu gert það að verkum að hann hefði íhugað formennsku að alvöru. 

„Ég tel það óheppilegt fyrir flokkinn að halda áfram í því andrúmslofti sem hann er í í dag. Það er best að fá skýra lausn í málið á flokksþingi hver sem hún verður. Sá sem kosinn er formaður hefur þá óskorað umboð flokksmanna til að ganga til kosninga,“ sagði Sigurður Ingi.

Í gær fundaði þingflokkur Framsóknarflokksins í tæpa fjóra klukkutíma. Sigurður Ingi fór af fundinum um klukkan hálf þrjú og ræddi ekki við fjölmiðla. Þá tilkynnti hann þingflokknum ekki um framboð sitt á þeim fundi og lýsti þingflokkurinn yfir fullum stuðningi við Sigmund Davíð að fundi loknum.

Fimm hafa boðið sig fram í þrjú efstu sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Þau eru Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra í 1. sæti. Silja Dögg Gunnnarsdóttir alþingismaður í 2.sætið. Í þriðja sætið bjóða sig fram þau Ásgerður Kristín Gylfadóttir hjúkrunarfræðingur, Einar Freyr Elínarson ferðaþjónustu- og sauðfjárbóndi og Fjóla Hrund Björnsdóttir stjórnmálafræðingur.


Tengdar fréttir

Umræður á fundinum voru erfiðar en hreinskilnar

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hjó á hnútinn í Framsóknarflokknum í gær með því að bjóða sig fram til formanns flokksins. Prófessor í stjórnmálafræði segir óvenjuharkalegt uppgjör eiga sér stað innan flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×