Innlent

Sigurður Ingi: „Óheppilegt fyrir flokkinn að halda áfram í því andrúmi sem hann er í í dag“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sveinn Arnarsson skrifa
Sigurður Ingi er forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins en sækist nú eftir formannsembættinu.
Sigurður Ingi er forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins en sækist nú eftir formannsembættinu. vísir/stefán
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins segir að það hafi verið erfið ákvörðun að bjóða sig fram til formanns flokksins en Vísir greindi frá framboði hans fyrr í kvöld.

Í samtali við fréttastofu segir Sigurður Ingi að skorað hafi verið nokkuð kröftuglega á hann og að þrýstingurinn um að hann gæfi kost á sér til formanns hafi farið vaxandi. Aðspurður hvort hann telji Framsóknarflokkinn ganga laskaðan til kosninga í óbreyttu ástandi segir hann:

„Ég held að það sé óheppilegt fyrir flokkinn að halda áfram í því andrúmi sem hann er í í dag og ég held að það sé best að fá skýra lausn og niðurstöðu í málið á flokksþingi hvernig sem hún verður og þá hefur sá sem kosinn er formaður óskorað umboð flokksmanna til þess að ganga til kosninga. Ég held að það sé besta leiðin.“

Í dag fundaði þingflokkur Framsóknarflokksins í tæpa fjóra klukkutíma. Sigurður Ingi fór af fundinum um klukkan hálfþrjú og talaði ekki við fjölmiðla. Eftir fundinn ræddu hins vegar þeir Willum Þór Þórsson þingmaður flokksins og Sigmundur Davíð við fréttamenn.

Willum Þór sagði að þingflokkurinn lýsti fullum stuðningi við Sigmund Davíð en sagði svo að hann sjálfur gæti hugsað sér að styðja Sigurð Inga og að mikilvægt væri að fram færi formannskosning á flokksþinginu sem haldið verður þann 1. og 2. október næstkomandi.

Sigmundur Davíð sagði í dag að hann teldi stöðu sína í flokknum góða.

„Við erum og eigum að vera mjög samheldinn og öflugur hópur. Og engin ástæða til að ætla annað en að við verðum það áfram. Þannig að ég er bjartsýnn á framhaldið og ég er bjartsýnn á kosningarnar. Hlakka til að komast í kosningabaráttuna alveg á fullu,“ sagði Sigmundur Davíð.

Nánar verður rætt við Sigurð Inga í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×