Innlent

Sigurður Hallvarðsson látinn

Sigurður Helgi Hallvarðsson, málarameistari og Þróttari er látinn 51 árs að aldri. Hann lést í dag, 10. júlí.  Banamein hans var krabbamein.

Sigurður fæddist á Siglufirði en fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur fimm ára gamall og ólst hann upp í Vogahverfinu. Hann fór þá mörg sumrin til Siglufjarðar og hafði sterkar taugar til bæjarins. Hann lauk sveinsprófi í málaraiðn 1987, meistararéttindi fékk hann 1989 og löggildingu sem málarameistari árið 2000. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu Sigurðar.

Sigurður vann lengi vel með föður sínum og stofnuðu þeir Gæðamálun saman. Á hans yngri árum stundaði Sigurður knattspyrnu með Þrótit í Reykjavík en spilaði jafnframt oft með Knattspyrnufélagi Siglufjarðar. Eitt sumar þjálfaði hann Huginn á Seyðisfirði en einnig spilaði hann með þeim og seinna með Haukum og eitt sumar með Fjölni Í Grafarvogi. Þróttari var hann samt alltaf og hélt mikla tryggð við félagið.

Sigurður kvæntist árið 2004 eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingu Maríu Friðriksdóttur.

Börn þeirra eru Sigurður Ingi (d), Hallvarður Óskar en fyrir áttu Sigurður og Inga börnin: Ágústu, Snorra, Aron, Rakel, Írisi Katrínu og Viktor. Einnig eiga þau fóstursynina Breka Stein og Sölva Pál .

Sigurður ásamt Helgu Birgisdóttur.Vísir/Pjetur
Í september á síðasta ári afhenti Sigurður Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, ávísun upp á átta milljónir króna. Skömmu áður hafði hann haldið áheitagöngu þar sem hann gekk frá Hveragerði til Reykjavíkur. Hann greindist með heilaæxli fyrir tæpum 10 árum og hefur notið stuðnings og endurhæfingar í Ljósinu. Hann hefur farið í fjölda aðgerða til að fá fá meina sinna bót. Í maí síðastliðnum kom í ljós að fjöldi meina hafði tekið sér bólfestu í heila Sigurðar sem í kjölfarið afþakkaði geisla- og lyfjameðferð.  

Sigurður Hallvarðsson var valinn hvunndagshetja ársins í maí síðastliðnum.

Vísir/Pjetur

Tengdar fréttir

Siggi Hallvarðs gengur úr Hveragerði til Reykjavíkur

Sigurður Hallvarðsson, fyrrum leikmaður Þróttar, mun á föstudaginn ganga frá Hveragerði að Ljósinu á Langholtsvegi. Með göngunni vill hann veita Ljósinu stuðning og endurgjalda samtökunum þakklæti sitt.

Verðlaun fyrir fórnfýsi og frumkvæði

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti í gær Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins. Þetta var í níunda sinn sem verðlaunin eru afhent

Hvunndagshetja ársins Sigurður Hallvarðsson

Sigurður Hallvarðsson er Hvunndagshetja ársins fyrir að vera öðrum góð fyrirmynd þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hann safnaði tíu milljónum króna til styrktar Ljósinu við Langholtsveg með áheitagöngu í roki og rigningu frá Hveragerði til Reykjavíkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×