Innlent

Sigurbjörn tekur við af Þórdísi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurbjörn Ingimundarson fyllir í skarð Þórdísar. Lögfræðingur inn og lögfræðingur út.
Sigurbjörn Ingimundarson fyllir í skarð Þórdísar. Lögfræðingur inn og lögfræðingur út.
Sigurbjörn Ingimundarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, en hann tekur við starfinu af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem hefur tekið við starfi aðstoðarmanns innanríkisráðherra.

„Þetta kom brátt að,“ segir Sigurbjörn í samtali við Vísi. Það hafi verið gaman að hans nafn hafi komið upp og hann hafi komist að samkomulagi við þingflokkinn um að taka starfið að sér.

„Það er mikil tilhlökkun og ég hlakka mjög til að kynnast fólkinu. Starfið er virkilega áhugavert og krefjandi.“

Aðspurður hvort hann reikni með að fá betri jólagjöf þessi jólin en nýtt og skemmtilegt starf segir Sigurbjörn: „Ég er allavega ánægður með þetta. Svo koma jólin sem verða haldin hátíðleg með fjölskyldunni.“

Sigurbjörn er 28 ára lögfræðingur.  Hann lauk BA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og ML gráðu frá sama skóla árið 2013.

Áður hefur Sigurbjörn m.a. starfað hjá LOGOS lögmannsþjónustu, Landsvirkjun og Garðabæ. Þá hefur hann verið virkur í félagsstörfum, m.a. verið formaður félags ungra Sjálfstæðismanna í Garðabæ, setið í stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ og verið nefndarmaður í umhverfisnefnd Garðabæjar.

Sigurbjörn er uppalinn Garðbæingur.  Hann er í sambúð með Söndru Dögg Þorsteinsdóttur og saman eiga þau rúmlega eins og hálfs árs gamla dóttur, Berglindi Eik.


Tengdar fréttir

Ólöf ræður annan aðstoðarmann

„Við hljótum að verða ágætisteymi saman,“ segir lögfræðingurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×