Handbolti

Sigurbergur með sex mörk er Holstebro komst í úrslit

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sigurbergur í leik með íslenska landsliðinu.
Sigurbergur í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Ernir
Sigurbergur Sveinsson fór á kostum í liði Tvis Holstebro í öruggum fimm marka sigri á GOG á heimavelli í dag 30-25 en með sigrinum komst Tvis Holstebro í úrslitaleikinn um danska meistaratitilinn.

Tvis Holstebro vann fyrri leik liðanna á útivelli á miðvikudaginn og voru Sigurbergur og félagar því í ansi góðri stöðu fyrir leikinn í dag.

Holstebro sem varð deildarmeistari fyrr í vor setti tóninn snemma og leiddi með sjö mörkum í hálfleik 19-12 og átti Sigurbergur fínann leik í fyrri hálfleik með fjögur mörk.

Sigurbergur bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik en þrátt fyrir að GOG næði að saxa á forskotið var sigurinn aldrei í hættu. Egill Magnússon var ekki á skýrslu hjá Holstebro í dag.

Holstebro er því komið í úrslitin um danska meistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins en í ljós kemur á morgun hvort mótherjinn verður Kolding eða Bjerringbro/Silkeborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×