Enski boltinn

Sigur í fyrsta leik Balotelli

Liverpool fagna marki Sterling.
Liverpool fagna marki Sterling. Vísir/Getty
Liverpool heldur áfram góðu taki sínu á Tottenham, en þeir rauðklæddu unnu góðan 3-0 sigur á White Hart Lane í dag.

Liverpool vann báða leiki liðanna í fyrra; 5-0 og 4-0 og svipað var uppá teningnum í dag. Lokatölur eins og fyrr segir 3-0 og samanlagt 12-0 fyrir Liverpool í síðustu þremur viðureignum þessara liða!

Mario Balotelli var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta skipti síðan hann kom frá AC Milan og hann fékk tvö góð skallafæri áður en fyrsta markið kom. Raheem Sterling skoraði eftir góða sókn og gestirnir frá Liverpool komnir yfir.

Vörn Liverpool var í tómum vandræðum oft á tíðum í fyrri hálfleik og Nacer Chadli fékk afar gott færi, en hann lét Simon Mignolet verja frá sér. Staðan var 1-0 í hálfleik eftir opinn og fjörugan fyrri hálfleik.

Eftir einungis fjórar mínútur í síðari hálfleik gerðist umdeilt atvik. Eric Dier greip þá aðeins í Joe Allen sem henti sér niður og Mike Dean, dómari leiksins, benti á punktinn við litla hrifningu heimamanna. Steven Gerrard steig á punktinn og skoraði sitt 29. mark úr víti fyrir Liverpool.

Róðurinn var orðinn þungur fyrir heimamenn og ekki skánaði ástandið fyrir Tottenham þegar Alberto Moreno skoraði þriðja mark Liverpool eftir tæpan klukkutíma. Spænski bakvörðurinn hirti boltann af Andros Townsend, sem var nýkominn inná sem varamaður, brunaði upp vænginn og þrumaði boltanum í hornið.

Lokatölur urðu 3-0 og eru því bæði lið með sex stig eftir fyrstu þrjá leikina. Öll mörkin úr leiknum má sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×