Körfubolti

Sigrún Sjöfn: Bærinn var tilbúinn

Gunnhildur Lind Hansdóttir skrifar
Sigrún Sjöfn lék með Grindavík í fyrra.
Sigrún Sjöfn lék með Grindavík í fyrra. vísir/anton
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, leikmaður Skallagríms, var skiljanlega sátt eftir sigurinn á Snæfelli í dag.

„Tilfinningin er bara frábær, liðið mætti tilbúið, bærinn mætti tilbúinn. Það er búin að vera mikil stemming fyrir þessum leik. Maður er búinn að heyra í allt sumar að allir foreldrar vita hvenær næsti leikur er, hvenær hann byrjar og bærinn var klár með okkur og þetta er frábær tilfinning,“ sagði Sigrún í leikslok.

Sigrún sneri aftur í Borgarnes í sumar þar sem hún spilar m.a. með systrum sínum, Guðrúnu Ósk og Örnu. En hvernig tilfinning er það?

„Það er náttúrulega bara einstakt. Það er langt síðan ég og Guðún höfum spilað saman en litla [Arna] hefur aldrei verið með okkur. Þetta er bara frábært að ná saman og mamma og pabbi í kringum þetta og það eru allir að gera þetta saman.  Mér finnst það bara einstakt og ég hef eiginlega ekki orð til að lýsa því,“ sagði Sigrún Sjöfn.

Skallagrímur styrkti sig vel í sumar og metnaðurinn er greinilega mikill í Borgarnesi. En hvert stefnir liðið?

„Fyrsta markmið okkar er bara einn leikur í einu. Við komum út úr þessu með tvö stig og það er bara næsti leikur. Jú, við stefnum á úrslitakeppnina eins og allir og svo kemur framhaldið í ljós,“ sagði Sigrún að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×