Íslenski boltinn

Sigríður tryggði KR stigin þrjú á Selfossi | Þór/KA á góðu róli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stelpurnar hennar Eddu Garðarsdóttur unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Selfossi.
Stelpurnar hennar Eddu Garðarsdóttur unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Selfossi. vísir/hanna
Sigríður María S. Sigurðardóttir tryggði KR sinn fyrsta sigur síðan 24. júní þegar hún skoraði eina markið gegn Selfossi á útivelli í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld.

Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir KR sem var búið að tapa sjö leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld.

Aðeins einu stigi munar nú á Selfossi og KR þegar fjórar umferðir eru eftir.

KR hefur aðeins unnið tvo leiki í sumar en þeir hafa báðir komið gegn Selfossi sem er kominn í vond mál eftir slæmt gengi að undanförnu.



Sandra María skoraði í sigri Þórs/KA.vísir/hanna
Fyrir norðan bar Þór/KA sigurorð af FH með þremur mörkum gegn tveimur. Þór/KA er í 4. sæti deildarinnar en liðið er ósigrað í síðustu fjórum leikjum sínum.

Hulda Ósk Jónsdóttir kom Þór/KA yfir á 34. mínútu en Aldís Kara Lúðvíksdóttir jafnaði metin úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var aðeins tveggja mínútna gamall þegar landsliðskonan Sandra María Jessen kom heimakonum yfir með sínu sjöunda deildarmarki í sumar.

Á 57. mínútu jók Sandra Stephany Mayor Gutierrez muninn í 3-1 en þessi mexíkóska landsliðskona hefur reynst Þór/KA afar vel í sumar.

Nadía Atladóttir hleypti spennu í leikinn þegar hún minnkaði muninn í 3-2 á 74. mínútu en nær komust FH-ingar ekki.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Úrslit.net og Fótbolta.net.


Tengdar fréttir

Eyjakonur sóttu sigur á Skagann

ÍBV vann sinn fjórða sigur í síðustu fimm leikjum þegar liðið lagði ÍA að velli í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna á Norðurálsvellinum á Akranesi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×