Innlent

Sigmundi var boðið til Rússlands en ætlar ekki

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hvorki Ólafur né Sigmundur Davíð ætla að fara til Moskvu.
Hvorki Ólafur né Sigmundur Davíð ætla að fara til Moskvu. Vísir/Stefán
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra var boðið að taka þátt í hátíðahöldum í Moskvu 9. maí næstkomandi sem haldin verða til minningar um að 70 ár eru liðin frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar. Vísir sagði frá því í morgun að Ólafur Ragnar Grímsson forseti ætlaði ekki að fera, enda hefði hann ekki fengið boð.



Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir að Sigmundur Davíð muni hins vegar ekki þiggja boðið. „Sendiherra Íslands í Rússlandi verður fulltrúi Íslands við þessi hátíðahöld,“ segir hann aðspurður um málið.



„Það hefur ekki verið nein ástæða gefin upp, þetta hefur bara ekki gengið saman að þessu sinni,“ segir Jóhannes aðspurður um ástæður þess að Sigmundur ætlar ekki að þiggja boðið. Þannig að það er ekki gert í mótmælaskyni við stefnu rússneskra stjórnvalda, til dæmis í Úkraínudeilunni? „Það hefur ekkert slíkt verið gefið út.“



Rússneski fréttavefurinn TASS greindi frá því fyrr í mánuðinum að á þriðja tug þjóðarleiðtoga hefðu þegið boð um þátttöku í hátíðahöldunum. Þar á meðal fulltrúar Kína og Norður-Kóreu. Ísland var einnig sagt hafa þegið boð um að taka þátt í hluta dagskrárinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×