Lífið

Siglt gegnum þorp og aðaltorg

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Vísir/GVA
Þetta er ákaflega skemmtilegur ferðamáti og óvenjulegur. Maður sér umhverfið með allt öðrum augum en út um bílgluggana og er í svo mikill nálægð við fólk á svæðinu,“ segir Helgi Pétursson fjölmiðlamaður um siglingu á húsbáti eftir skipaskurðum og ám í Evrópu. Hann upplifði það á síðasta hausti ásamt eiginkonu sinni, Birnu Pálsdóttur, og vinafólkinu Dagbjörtu Helenu Óskarsdóttur, Eggert Pálssyni, Ólöfu Helgadóttur og Friðriki Sigurðssyni. Hann kveðst hafa prófað svona siglingu áður en samferðafólkið ekki.





Ferðafélagarnir Eggert, Friðrik, Dagbjört Helena, Ólöf, Birna og Helgi.Mynd/úr einkasafni
„Þetta var tíu daga ferð og við sigldum um Alsace-Lorraine-héraðið á landamærum Frakklands og Þýskalands, stigum um borð í bátinn í Hesse í Frakklandi og héldum af stað áleiðis til Saarbrücken í Þýskalandi.“

Helgi segir skipaskurði Evrópu gríðarlega umfangsmikið kerfi sem eigi ríka sögu.

Borgin Saarbrücken í Þýskalandi var endastöðin.Mynd/úr einkasafni
„Skipaskurðirnir eru gömlu flutningaleiðirnar, ásamt ám og vötnum. Stundum er siglt yfir brýr þar sem þjóðvegur er undir eða hús en í stað gömlu skipastiganna eru lyftur sem flytja bátana upp og niður. Það er visst ævintýri. Þorpin byggðust við skurðina og því er siglt í gegnum þau og jafnvel aðaltorgin þannig að ferðamaðurinn kemst auðveldlega í snertingu við lífið þar. Stóru þjóðvegirnir eru einhvers staðar langt fyrir utan. Hægt er að leggja bátunum að hvar sem er, fá sér sæti á bekk eða rölta út í búð. Fyrirtaks þjónusta er víða, til dæmis hægt að komast í þvottavélar við bryggjurnar.“





Ólöf og Dagbjört Helena leggja upp í smá hjólatúr.Mynd/úr einkasafni
Helgi segir hópinn hans hafa verið duglegan að elda. „Það var gaman að komast í gæðavöru hjá slátraranum og bakaranum, að maður tali nú ekki um vínið frá þessum tröktum, því ekki skorti krár og veitingahús.“

Hjólastígar liggja meðfram skipaskurðunum, að sögn Helga og ferðafélagarnir voru með hjól um borð til að geta hreyft sig af og til.





Dólað á sex mílna hraða.Mynd/úr einkasafni
Báturinn var 14 metra langur, með þremur herbergjum, hverju með sínu baði. Helgi segir rúmföt, handklæði og eldhúsáhöld hafa fylgt með og bendir forvitnum á heimasíðuna leboat.com. „Þetta er lúxus en alls ekki dýrara en önnur ferðalög,“ fullyrðir hann. „Bara mjög sambærilegt við eitthvað sem mundi heita flug og bíll.“



Mæst á ánni.
Svo segir Helgi ekkert mál að stýra, enda þurfi engin sérstök réttindi til að sigla bátum af þessu tagi. „Rytminn er mjög þægilegur. Það er bara dólað á sex mílna hraða til að trufla ekki karlana sem eru að veiða og svo er yndislegt að borða kvöldmatinn undir sólhlíf uppi á þaki þegar komið er í höfn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×