Viðskipti innlent

Sífellt fleiri setja sér stefnu um samfélagsábyrgð

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Eva Margrét Ævarsdóttir og Hildur Hauksdóttir stofnendur RoadMap.
Eva Margrét Ævarsdóttir og Hildur Hauksdóttir stofnendur RoadMap. Vísir/Pjetur
RoadMap er nýtt fyrirtæki sem veitir fyrirtækjum, ríkisstofnunum og frjálsum félagasamtökum ráðgjöf við gerð stefnu og skýrslna á sviði umhverfis- og samfélagsábyrgðar, mótun og úttekt á stjórnarháttum og lögfræðiráðgjöf.

Stofnendurnir sem hafa mikla reynslu úr atvinnulífinu eru Eva Margrét Ævarsdóttir lögfræðingur, sem var einn af eigendum Lex lögmannsstofu, Hildur Hauksdóttir MBA með sérhæfingu í umhverfis- og samfélagsábyrgð, og Helga Lára Hauksdóttir lögfræðingur sem hefur um árabil starfað við lögfræðiráðgjöf.

Samstarfsaðili RoadMap er Netbalance, leiðandi ráðgjafarfyrirtæki í umhverfis- og samfélagsábyrgð.

„Umhverfis- og samfélagsábyrgð snýst mikið um að fyrirtæki og viðskiptavinir séu meðvitaðir við kaup á vöru og þjónustu. Það er einfaldlega gott fyrir efnahag fyrirtækja að láta sig varða umhverfis og samfélagsmál,“ segir Hildur í samtali við Markaðinn í dag.

Þær segja sífellt fleiri fyrirtæki setja sér stefnu á sviði umhverfis- og samfélagsábyrgðar og mælanleg markmið við innleiðingu hennar auk þess að miðla upplýsingum um slíkt með reglubundnum hætti. Þannig geta þau aukið virði fyrirtækisins og hagsmunaaðila og bætt jákvæð áhrif sín á umhverfi og samfélag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×