Erlent

Sífellt fleiri flýja til Kanada frá Bandaríkjunum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fjöldi fólks sem flýr yfir landamæri Bandaríkjanna til Kanada eykst með hverjum deginum.

Bandarísk yfirvöld undir forustu Donald Trump hafa gefið það út að þau hyggist herða innflytjendalöggjöf sína og meina fleira fólki að öðlast nýtt líf í Bandaríkjunum.

Takist fólkinu að flýja yfir landamærin til Kanada geta þau sótt um hæli þar og vegna rýmri innflytjendalöggjafar geta þau átt þess kost að verða kanadískir ríkisborgarar, fái þau stöðu flóttamanns.

Náist þau hins vegar á landamærunum, af bandarískum landamæravörðum, er ljóst að þeim verður snúið við til upprunalands síns en mikið af fólkinu sem flýr yfir landamærin eru ólöglegir innflytjendur í Bandaríkjunum.

Ljósmyndari á vegum Reuters fréttaveitunnar varð vitni að einum slíkum hópi hælisleitenda, sem flúði yfir landamærin, frá Bandaríkjunum og til Kanada. Um var að ræða átta manna hóp en fjórir í hópnum voru börn.

Bandarískir landamæraverðir náðu næstum að stöðva för þeirra en fólkinu tókst með snarheitum að hlaupa út úr bílnum sem þau ferðuðust á og í fang kanadískra lögreglumanna sem biðu þeirra hinumegin við landamærin.

Talið er að þau séu upprunalega frá Súdan og að þau hafi búið í tvö ár í Delaware.

Níunda manneskjan var hins vegar stöðvuð af bandarískum landamæravörðum og komst ekki yfir til Kanada. Í viðtali við fjölmiðla sagði hann að staða þeirra hefði verið mjög slæm.

„Öllum er sama um okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×