Skoðun

Sif og frelsið til fordóma

Bryndís Nielsen skrifar
Sif Sigmarsdóttir birti nýverið pistil í Fréttablaðinu um fordóma og fer þar víða. Nú er ég sammála minni gömlu vinkonu varðandi ýmislegt en finnst þó skjóta skökku við að hún hefji greinina með því að afhjúpa djúpstæða fordóma gagnvart almannatenglum. Ganga jafnvel svo langt að kalla þá „flór-mokandi afstæðisprédikara“ og segja stéttina vera „sannleikanum eins og engisprettufaraldur er gróðri“. Þetta er auðvitað ekkert annað en argasti atvinnurógur.

Óprúttnir spunameistarar?

Sem ráðgjafi í almannatengslum hef ég margoft þurft að sitja undir ásökunum af þessu tagi, ásökunum sem hafa þó verið í litlum sem engum tengslum við raunveruleg störf mín eða flestra annarra almannatengla hér á landi. Almannatenglar eru gjarnan sagðir óprúttnir spunameistarar sem starfa við að afbaka sannleikann gagnvart grunlausum almenningi, spilltum stórfyrirtækjum í vil. Slíkar fullyrðingar hafa ekkert með sannleikann að gera.

Nú er misjafn sauður í mörgu fé, en við verðum að hafa það í huga að raunveruleikinn er ekki ávallt eins og bandarískir sjónvarpsþættir vilja túlka hann. Að líkja almannatenglum við plágur sem starfi við það eitt að hvítþvo spillta og valdamikla aðila gagnvart grunlausum almenningi er sambærilegt því að segja að allir ljósmyndarar séu óforskammaðir papparassar sem eltist við appelsínuhúð erlendra leikkvenna með aðdráttarlinsum. Þó einhverjir þeirra geri vissulega slíkt þá er af og frá að segja þá starfshætti einkennandi fyrir stéttina.

Úlfur, úlfur!

Almannatenglar eru ráðgjafar í samskiptamálum. Þeir aðstoða fyrirtæki, félög og stofnanir við að koma skilaboðum sínum á framfæri og að veita þeim góð ráð í samskiptum, bæði inn á við og út á við. Oft felst það í að skrifa fréttatilkynningar eða koma skilaboðum með öðrum hætti áleiðis til almennings. Þannig þjóna þeir viðskiptavinum sínum en stuðla um leið að því að fjölmiðlar spegli umræðuna í samfélaginu frá sem flestum sjónarhornum.

Við þekkjum öll dæmisöguna um drenginn sem kallaði „úlfur, úlfur“ og á hún ekki síst við um störf okkar almannatengla. Verði ég til að mynda uppvís að lygum fyrir viðskiptavin er traust mitt gagnvart starfsfólki fjölmiðla og almenningi uppurið og erfitt að sjá hvernig ég ætlaði að sjá fyrir mér í því starfi framvegis.

Fordómar í verki

Pistil sinn kallar Sif „Frelsi til að sýna fordóma í verki“ og má vel heimfæra þá fyrirsögn á efni greinarinnar. Fordómar eru af ýmsum toga en góðu fréttirnar eru þær að með aukinni fræðslu og upplýsingu má vel uppræta þá. Því vil ég nota tækifærið og bjóða Sif í kaffi til mín, hvenær sem henni hentar, svo við getum farið saman yfir raunveruleg störf íslenskra almannatengla. Vonandi verður það til þess að uppræta þá fordóma sem hún ber í garð stéttarinnar.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×