Lífið

Sif Cosmetics í Marie Claire í Suður-Kóreu

Mynd af gróðurhúsi SIF Cosmetics í Marie Claire
Mynd af gróðurhúsi SIF Cosmetics í Marie Claire Vísir/David Lund
Einn stærsti snyrtivöruframleiðandi á Íslandi, Sif Cosmetics, fékk fjögurra síðna umfjöllun í vinsælasta glanstímaritinu í Kóreu, Marie Claire.

„Þetta er með stærri umfjöllunum sem við höfum fengið í tímaritum erlendis. Þetta er gríðarleg kynning fyrir okkur og enn meiri landkynning í Kóreu,“ segir Eiríkur Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Sif Cosmetics, en fyrirtækið framleiðir BIOEFFECT-vörurnar vinsælu, sem unnar eru úr frumuvakanum EGF sem er unninn úr byggi.

„Þetta er langt frá því að vera í fyrsta sinn sem við fáum svona stóra umfjöllun erlendis, en Kórea er gríðarlega stór og mikilvægur markaður, svo þetta er frábær auglýsing fyrir okkur,“ segir Eiríkur, en fyrirtækið hefur undanfarið verið að sækja á Asíumarkað og ætlar sér stóra hluti þar. 

Eiríkur Sigurðsson, upplýsingafulltrúi SIFVísir
Asíubúar hafa lengi verið framarlega í snyrtivöruiðnaðinum og má rekja upphaf BB-kremanna vinsælu til þeirra. Fyrirtækið fagnar fjögurra ára afmæli um þessar mundir. Á þessum stutta tíma hafa mörg þekktustu glanstímarit heims, Vogue og Harper‘s Baazar meðal annarra, fjallað um vörur þeirra og mátti finna BIOEFFECT-meðferðina á lista yfir hundrað bestu snyrtivörur ársins hjá því síðarnefnda.

Aðspurður hvort Eiríkur hafi þekkt öll þessi glanstímarit áður, neitaði hann því en sagðist vera farinn að þekkja þetta ágætlega núna. „Þetta er spennandi geiri en mikil samkeppni. Ég hef þurft að læra mikið um þennan heim og kynna mér þessi tímarit sem hingað eru að koma,“ segir Eiríkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×