Fótbolti

Sif Atla: Er það ekki bara svolítið íslenskt að fara alltaf erfiðu leiðina að öllu

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
„Þetta var ömurlegt," var það fyrsta sem kom upp úr Sif Atladóttur eftir 1-2 tap á móti Norðmönnum á Ullevaal leikvanginum í kvöld. Íslenska liðið var miklu meira með boltann og átti jafnteflið skilið sem hefði komið liðinu beint inn á Evrópumótið næsta sumar.

„Þetta var voða skrýtið. Þær sköpuðu ekki neitt og svo kemur mark upp úr engu. Þetta var svona dæmigert einbeitingaleysi," sagði Sif um þrjár skelfilegar mínútur í lok fyrri hálfleiks þegar norska liðið skoraði bæði mörkin sín.

„Þetta var of mikið stress hjá okkur í fyrri hálfleik og við vorum að reyna of mikið af löngum boltum sem er eitthvað sem við ætluðum ekki að gera. Þær vildu hafa þannig en þegar við fórum að spila stuttum sendingum í seinni hálfleiknum þá áttu þær ekki möguleika. Þær voru orðnar stressaðar og maður heyrði bara stanslaust, útaf með boltann, útaf með boltann. Þær lágu líka í grasinu eins mikið og þær gátu en því miður féll þetta þeirra megin í dag," sagði Sif.

„Við vorum aðeins of mikið að flýta okkur á síðasta þriðjungnum og í staðinn fyrir að finna auðveldu sendinguna þá tókum við skot af löngu færi eða eitthvað svoleiðis. Við þurfum bara að vinna í þessu því við erum betri en þetta og eigum að gera betur," sagði Sif en hún hrósaði mikið marki Margrétar Láru Viðarsdóttur.

„Við skoruðum æðislegt mark eftir þvíklíkt uppspil og það væri gaman að sjá það aftur á myndbandi. Við hefðum viljað fá annað svona," sagði Sif í léttum tón. Framundan eru leikir í umspilinu.

„Þetta dettur einhvern veginn alltaf þannig fyrir okkur að við þurfum að fara erfiðu leiðina að öllu. Er að ekki svolítið íslenskt bara. Við förum í gegnum þetta og þurfum bara að peppa okkur upp. Við verðum fúlar í kvöld en á morgun tekur bara nýtt verkefni við," sagði Sif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×