Erlent

Síðustu mínútur flugsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjallshlíðin þar sem vélin brotlenti er mjög brött og gerir það starf björgunarmanna erfitt.
Fjallshlíðin þar sem vélin brotlenti er mjög brött og gerir það starf björgunarmanna erfitt. Vísir/EPA
Þrjátíu mínútna hljóðupptaka úr flugstjórnarklefa vélarinnar hefur gefið skýrustu myndina af atburðarrásinni hingað til þegar flugvél Germanwings brotlenti í Ölpunum á þriðjudaginn. 150 létust í brotlendingunni, þar af sex áhafnarmeðlimir. Erlendir miðlar hafa púslað saman síðustu mínútum flugsins út frá þeim gögnum sem liggja fyrir.

Vélinni var flogið af stað frá Barcelona klukkan 9:01 á þriðjudaginn og stefnan sett á Düsseldorf í Þýskalandi. Langflestir farþegar vélarinnar, alls 71, voru frá Þýskalandi, 48 voru frá Spáni, þrír frá Argentínu, þrír frá Ameríku, tveir frá frá Ástralíu, tveir frá Bretlandi, tveir frá Kólumbíu og tveir frá Íran. Þar að auki voru einstaklingar frá öðrum löndum.

Síðustu samskipti flugumferðarstjórnar við flugvélina voru klukkan 09:30. Á þeim tímapunkti virtist allt vera á réttu róli, samkvæmt BBC.

Mínútu seinna fór vélin að lækka flugið.

Saksóknarinn Brice Robin sagði í gær að fyrstu tuttugu mínútur flugsins hefðu samræður flugmannanna verið eðlilegar. Hins vegar sagði hann að þegar flugstjórinn fór að tala um lendingarferlið hafi svör aðstoðarflugmannsins, Andreas Lubitz orðið stutt og reiðileg.

Skömmu seinna stóð flugstjórinn upp til þess að fara á klósettið og bað Lubitz um að taka við stjórninni. Þá má heyra hurð lokast og aðstoðarflugmaðurinn var einn í flugstjórnarklefanum. Mun hann þá hafa breytt stillingum vélarinnar svo hún fór að lækka flugið.

„Breytingin á hæðarstillingunni getur einungis hafa verið vísvitandi,“ sagði Robin.

Samkvæmt gagnagreiningu starfsmanna Flightradar24 var hæðarstillingu sjálfsstýringarinnar breytt úr 38 þúsund fetum í hundrað.

Starfsmenn flugumferðarstjórnar reyndu að ná sambandi við vélina þegar þeir sáu hæðarbreytingarnar, en fengu engin svör. Um klukkan 09:35 bankaði flugstjórinn á dyr flugstjórnarklefans og bað um að vera hleypt inn. Honum var heldur ekki svarað og reyndi hann þá að slá inn neyðarnúmer til opna dyrnar. Þegar númerið er slegið inn er 30 sekúndna tímabil þar sem mögulegt er að koma í veg fyrir opnun dyranna úr flugstjórnarklefanum.

Þegar dyrnar opnuðust ekki eftir þessar 30 sekúndur byrjaði flugstjórinn að berja harðar á hurðina og og biðja Lubitz um að hleypa sér inn. Meðal annars notaði hann öxi til að reyna að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefann.

Andardráttur aðstoðarflugmannsins heyrist á upptökunum og hefur honum verið lýst sem eðlilegum. Hann sendi ekki út nein neyðarskilaboð, né sagði hann stakt orð.

Á undir tíu mínútum brotlenti flugvélin í Ölpunum, en hún flaug á fjall á um 700 kílómetra hraða. Undir lok myndbandsins heyrast öskur farþeganna á upptökunni, en Robin telur að þau hafi ekki áttað sig á því hvað hafi verið að gerast fyrr en í blálokin.

Flugumferðarstjórn missti radarsamband við vélina klukkan 09:40:47 og þá var vélin í 6.175 feta hæð.


Tengdar fréttir

Kafa djúpt í líf Lubitz

Þýska lögreglan hefur hafið viðamikla rannsókn á lífi Andreasar Lubitz, aðstoðarflugmanni German Wings sem flaug Airbus þotu af ráðnum hug á fjallshlíð í Ölpunum.

Flugmenn koma Lubitz til varnar

Samband atvinnuflugmanna í Þýskalandi segir ótímabært að staðhæfa um aðgerðir Lubitz án hins svarta kassans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×