Innlent

Síður inngrip hjá þeim sem fæða heima

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Síðustu áratugi hafa flestar konur hér á landi valið að eiga börn sín á sjúkrahúsi þó svo að heimafæðingum hafi vaxið fiskur um hrygg.
Síðustu áratugi hafa flestar konur hér á landi valið að eiga börn sín á sjúkrahúsi þó svo að heimafæðingum hafi vaxið fiskur um hrygg. Mynd/Halldóra Ólafs
Konur hafa rétt til að velja hvar þær fæða börnin sín. Sá réttur er staðfestur af Mannréttindadómstól Evrópu og hefur ekki verið þrengt að þeim rétti hér á landi.

Aftur á móti hafa nær allar íslenskar konur valið að fæða barn sitt inni á sjúkrahúsi síðustu áratugi. Til dæmis fæddi eingöngu 0,1 prósent kvenna utan sjúkrastofnana árið 1990. Frá aldamótum hefur þó færst í vöxt að konur fæði heima og síðustu ár hafa um tvö prósent fæðinga verið í heimahúsi.

Berglind Hálfdánsdóttir, doktor í ljósmæðrafræði, gerði rannsókn þar sem hún bar saman hraustar konur sem ákváðu fyrirfram að fæða í heimahúsi annars vegar og á sjúkrastofnun hins vegar.

„Í stuttu máli eru niðurstöðurnar þær að hjá konum sem fæða í heimahúsi og eru ekki í áhættuhópi á meðgöngu var lægri tíðni hríðaörvunar og mænudeyfinga auk minni blæðinga eftir fæðingu en hjá sambærilegum hópi sem fæddi á sjúkrahúsi,“ segir Berglind.

Einnig var hópur kvenna skoðaður sem kaus að fæða heima, þrátt fyrir að eiga við vandamál að stríða sem flokkast undir áhættumeðgöngu og samkvæmt leiðbeiningum Landlæknis því ráðlagt að fæða á sjúkrastofnun. Hjá þeim hópi kom í ljós aukin áhætta við að fæða heima. 

Berglind Hálfdánsdóttir
Til viðbótar var viðhorf kvenna til fæðinga skoðað og athugað hvort það hefði áhrif á fæðinguna. „Jákvætt viðhorf kvenna hefur vissulega jákvætt fylgi við heimafæðingar og minni inngrip við fæðingar. En það skýrir þó ekki alveg þennan mun á heima- og sjúkrahúsfæðingum.“

Berglind segir niðurstöður rannsóknarinnar vekja upp spurningar um fyrirkomulag fæðinga á Íslandi. „Í heilbrigðiskerfi sem rekið er fyrir opinbert fé og þar sem stöðugt þarf að huga að því hvernig við nýtum best fjármuni, má velta fyrir sér hvort það megi teljast eðlilegt að jafn hátt hlutfall kvenna fæði inni á sjúkrahúsi eins og raun ber vitni hér á landi.“

Síðustu ár hefur umræðan um heimafæðingar á Íslandi opnast. Berglind telur líklegt að netið eigi sinn þátt í því að konur ræði saman og geri sér grein fyrir fleiri valkostum en sjúkrahúsfæðingum. Þess má geta að heimafæðingartíðnin er hæst á Íslandi af Norðurlöndunum og aðeins Bretland og Holland eru með hærri tíðni í Evrópu.

„Til að efla þetta enn frekar er mikilvægt að vera með faglegar leiðbeiningar um hvað felist í öruggri fæðingarþjónustu. Eitthvað sem yrði á landsvísu og er ekki til í dag. Einnig þarf að samþætta betur, með formlegum hætti, heimaþjónustu og sjúkrahús. Svo samráð og flutningur gangi greiðlega fyrir sig ef upp koma vandamál. Einnig þarf að gæta þess að menntun íslenskra ljósmæðra verði áfram jafn sterk og vönduð og hún hefur verið hingað til.“

Berglind segir vissulega ódýrara fyrir heilbrigðiskerfið að heimafæðingum fjölgi. Kostnaður eigi þó alls ekki að stýra því hvernig litið sé til fæðingarstaða eða vera forsenda fyrir fjölgun heimafæðinga.

„Við búum í samfélagi þar sem konur eru aldar upp við þá hugmynd að sjúkrahús sé eðlilegi fæðingarstaðurinn og öruggasti valkosturinn. Ef það er sannfæring konunnar að sjúkrahús sé öruggast fyrir hana, þá er það rétti staðurinn. Lykilatriði í fæðingu er að kona sé ekki hrædd þegar hún fer í fæðingu því það getur haft neikvæð áhrif á sjálfa fæðinguna. Því má ekki ýta á konur að fæða heima af sparnaðarástæðum, það myndi ekki gefa góða raun. Aftur á móti má bjóða upp á góða valkosti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×