Enski boltinn

Síðasti Norður-Lundúnaslagurinn á White Hart Lane | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erkifjendurnir Tottenham og Arsenal mætast í Norður-Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn hefst klukkan 15:30.

Þetta verður síðasti Norður-Lundúnaslagurinn á White Hart Lane en Tottenham mun flytja á nýjan heimavöll fyrir tímabilið 2018-19. Á næsta tímabili spilar liðið á Wembley.

Tottenham er eina liðið sem getur ógnað toppliði Chelsea sem sækir Everton heim klukkan 13:05. Sigrar hjá Tottenham og Everton í dag myndu gera toppbaráttuna afar áhugaverða.

Tottenham er á mikilli siglingu og hefur unnið átta deildarleiki í röð með markatölunni 23-4.

Arsenal er í 6. sætinu og í baráttu um Meistaradeildarsæti. Skytturnar eru fimm stigum á eftir Manchester City sem situr í 4. sætinu.

City sækir Middlesbrough heim klukkan 13:05. Boro vann Sunderland í síðustu umferð en það þarf mikið að gerast til að liðið bjargi sér frá falli.

Manchester United tekur á móti Swansea City í fyrsta leik dagsins sem hefst klukkan 11:00. Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað á Old Trafford undanfarin tvö ár og vill eflaust halda í þá hefð.

Swansea er í átjánda og þriðja neðsta sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti. Velska liðið myndi því þiggja eitthvað úr leiknum í dag.

United er í 5. sæti deildarinnar en getur stokkið upp í það þriðja, allavega um stundarsakir, með sigri.

Leikir dagsins:

11:00 Man Utd - Swansea (beint á Stöð 2 Sport HD)

13:05 Everton - Chelsea (beint á Sport HD)

13:05 Middlesbrough - Man City (beint á Sport 2 HD)

15:30 Tottenham - Arsenal (beint á Sport HD)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×