Erlent

Síðasti áhafnarmeðlimur Enola gay látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Theodore "Dutch“ VanKirk tók þátt í því að varpa fyrstu kjarnorkusprengju heimsins sem beitt var í hernaði.
Theodore "Dutch“ VanKirk tók þátt í því að varpa fyrstu kjarnorkusprengju heimsins sem beitt var í hernaði. Vísir/AP
Síðasti meðlimur áhafnarinnar sem varpaði kjarnorkusprengjunni á Hiroshima er látinn. Theodore „Dutch“ VanKirk dó á dvalarheimili á mánudaginn 93 ára gamall.

Theodore tók þátt í yfir 60 loftárásum í seinni heimstyrjöldinni, en þessi eini dagur, 6. ágúst 1945, skipaði honum sess í sögubókunum. Hann var 24 ára gamall aðstoðarflugmaður þegar hann var í áhöfn Enola Gay, sem var sprengjuflugvél af gerðinni B-29.

Í viðtali við AP fréttaveituna árið 2005 sagði Theodore að árásin hefði heppnast fullkomlega. Þeir hafi einungis verið fimmtán sekúndum á eftir áætlun þegar þeir vörpuðu rúmlega fjögurra tonna sprengjunni Little boy, eða litli strákur, á sofandi borgina.

Áhöfnin vissi ekki hvort að sprengjan myndi virka og ef hún myndi virka áttu þeir von á að höggbylgjan myndi rífa flugvél þeirra í sundur.

Þeir töldu, þúsund og einn, þúsund og tveir og framvegis þar til þeir komu að 43 sekúndum.

„Ég held að allir um borð hafi haldið að sprengjan hafi ekki sprungið. Okkur fannst þetta vera mun meira en 43 sekúndur,“ sagði Theodore.

Þá kom skært ljós. Skömmu seinna fundu þeir höggbylgju og svo aðra. 140 þúsund manns létu lífið í sprengingunni og vegna áhrifa hennar.

Þremur dögum seinna var annarri sprengju varpað á Nagasaki þar sem 80 þúsund manns létu lífið og sex dögum eftir það gáfust Japanir upp.

AP fréttaveitan segir að umræðan um hvort Bandaríkin hefðu átt að beita þessum gereyðingarvopnum sé endalaus. Theodore telur þó að til lengri tíma hafi sprengjan bjargað mannlífum. Þannig hafi bandamenn komist hjá því að gera innrás í Japan, sem hefði kostað fjölmarga lífið á báðum hliðum.

„Ég trúi því að notkun kjarnorkusprengjunnar hafi bjargað lífum til lengri tíma litið. Flest þeirra lífa voru japönsk,“ sagði Theodore.

Reynsla hans í seinni heimstyrjöldinni segir hann að hafi sýnt sér fram á að stríð leysi ekki neina vanda. Hvað þá heldur kjarnorkusprengjur. Persónulega vildi hann að kjarnorkusprengjur hefðu aldrei verið framleiddar.

„En ef einhver á kjarnorkusprengju. Þá vil ég eiga einni meira en óvinir mínir,“ sagði Theodore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×