Erlent

Síberíuhraðlestin ekki lengur lengsta lestarleið heims

Atli Ísleifsson skrifar
Vöruflutningalestin yfirgaf Yiwu á þriðjudaginn og er búist við að ferðin taki 21 dag.
Vöruflutningalestin yfirgaf Yiwu á þriðjudaginn og er búist við að ferðin taki 21 dag. Vísir/AFP
Ný lestarleið sem tengir spænsku höfuðborgina Madríd og kínversku borgina Yiwu er nú sú lengsta í heimi. Síberíuhraðlestin milli rússnesku höfuðborgarinnar Moskvu og Vladivostok á austurströnd Rússlands er því ekki lengur sú lengsta.

Á þriðjudaginn í síðustu viku yfirgaf kínversk vöruflutningalest lestarstöðina í hafnarbænum Yiwu í austurhluta landsins. Lestin stefnir til Madrídar og er búist við að ferðin taki 21 dag.

Í frétt India Today segir að alls sé ferðin 9.980 kílómetrar. Lestin mun fara um Kína, Kasakstan, Rússland, Hvíta-Rússland, Pólland, Þýskaland og Frakkland áður en lestin heldur loks yfir landamærin til Spánar.

Kínversk yfirvöld vinna nú að því að efla samgöngur milli Kína og Evrópu, vegna aukinna viðskipta. Segir að lestarleiðin Yiwu-Madríd gangi undir nafninu „Nýi silkivegurinn“, en nú er bara spurning hvort opnað verði fyrir farþegaumferð á sömu leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×