Enski boltinn

Sherwood: Tottenham verður að vinna eitthvað til að halda Kane

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane vann Gullskóinn á síðasta tímabili.
Harry Kane vann Gullskóinn á síðasta tímabili. vísir/getty
Tim Sherwood, fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri Tottenham, segir að Harry Kane muni yfirgefa félagið ef því mistekst að vinna titil í ár.

Kane hefur skorað grimmt fyrir Tottenham undanfarin ár. Hann á hins vegar enn eftir að vinna titil með félaginu.

„Tottenham hefur verið frábært félag fyrir Kane og hann hefur borgað því tífalt til baka. Hann hefur verið frábær undanfarin ár, hann ólst upp rétt hjá vellinum og elskar félagið,“ sagði Sherwood í þættinum The Debate á Sky Sports í gær.

„En það endist bara í ákveðið langan tíma. Þegar félög á borð við Barcelona, Real Madrid og Manchester United sýna áhuga snýst fólki oft hugur. Eina leiðin fyrir Tottenham til að halda honum er að vinna eitthvað í ár. Það gæti þurft að vera enska úrvalsdeildin eða bikarkeppnin.“

Þrátt fyrir að vera einn af launahæstu leikmönnum Tottenham er Kane með minna en helmingi lægri laun en hæstlaunuðustu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar. Ian Wright, sem var einnig gestur í The Debate, segir að launamálin geti skipt máli.

„Þegar þú ert með mann eins og Kane sem hefur unnið tvo Gullskó á þremur árum og hann er enn að fá 120.000-150.000 pundum minna en aðrir leikmenn, þá passar það ekki,“ sagði Wright.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×