Erlent

Shangri-La frjálshyggjumanna

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Vit Jedlicka . Engir öfgamenn fá ríkisborgararétt.
Vit Jedlicka . Engir öfgamenn fá ríkisborgararétt. vísir/afp
Tékkneski stjórnmálamaðurinn Vit Jedlicka hefur bæst í hóp evrópskra þjóðarleiðtoga. Þó er líklega ekki við hæfi að kalla hann tékkneskan þar sem hann hefur stofnað nýtt ríki á landamærum Króatíu og Serbíu.

Ríkið, sem hann kallar Liberland, er á sjö ferkílómetra skika sem er umdeilt landsvæði á milli nágrannaríkjanna tveggja.

Markmið Jedlicka er að búa til pólitískan tilraunavettvang en hann vill að Liberland verði fyrirmyndarríki frjálshyggjumanna, þar verði greiðsla á sköttum valfrjáls og bannað er að hafa tekið þátt í hreyfingu nasista eða kommúnista. Jedlicka segir í samtali við The Guardian að fyrirmyndarþegn Liberland yrði eflaust Thomas Jefferson ef hann væri á lífi í dag.

Þegar Jedlicka lýsti yfir stofnun ríkisins á mánudaginn voru þegnarnir bara þrír en fólki er frjálst að sækja um ríkisborgararétt. Síðan þá hafa um 200 þúsund einstaklingar sótt um ríkisborgararétt í ríkinu. Margir nýju þegnanna eru tilbúnir að bjóða fram aðstoð sína en að sögn Jedlicka hafa þeir boðist til að knýja ríkið með sólarorku, slá nýja mynt, útbúa deiluskipulag fyrir höfuðborgina og fleira. „Fólk er tilbúið að fjárfesta í þessu verkefni, það lítur út eins og draumar séu að rætast,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×