Golf

Shane Lowry sigraði á Firestone

Shane Lowry gat verið sáttur með dagsverkið.
Shane Lowry gat verið sáttur með dagsverkið. Getty.

Írski kylfingurinn Shane Lowry tryggði sér sinn þriðja og langt stærsta sigur í atvinnumannamóti á ferlinum í kvöld en hann sigraði á Bridgestone Invitational heimsmótinu í golfi.

Fyrir hringinn á Firestone vellinum var Lowry tveimur höggum á eftir Justin Rose og Jim Furyk sem voru í forystu en þeir léku báðir illa á fjórða hring og því kom það í hlut Bubba Watson og Lowry að berjast um sigurinn.

Þar hafði Lowry betur eftir stórkostlegt innáhögg á 18. holu sem gulltryggði honum sigurinn og rúmlega 200 milljónir króna í verðlaunafé.

Watson endaði einn í öðru sæti en Rose og Furyk þurftu að sætta sig við að deila þriðja sætinu.

Shane Lowry hefur spilað á Evrópumótaröðinni undanfarin ár en með sigrinum í kvöld fær hann fullan þátttökurétt á hinni bandarísku PGA-mótaröð þar sem flestir bestu kylfingar heims spila.

Það er skammt stórra högga á milli í golfheiminum en um næstu helgi fer PGA-meistaramótið fram sem er síðasta risamót ársins.

Þar mun Rory McIlroy meðal annars mæta til leiks eftir meiðsli ásamt Tiger Woods sem mætir til leiks á ný eftir tveggja vikna frí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×