Innlent

SFS styrkir doktorsnema til rannsókna á súrnun sjávar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Hrönn Egilsdóttir og Karen Kjartansdóttir
Hrönn Egilsdóttir og Karen Kjartansdóttir VÍSIR/SFS
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi munu styrkja Hrönn Egilsdóttur, doktorsnema í sjávarlíffræði, til frekari rannsókna á súrnun sjávar við Íslandsstrendur.

Hrönn hefur vakið athygli fyrir rannsóknir sínar á súrnun sjávar, fyrirbæri sem kallað hefur verið falinn fylgifiskur loftslagsbreytinga og losun gróðurhúsalofttegunda.

„Það að SFS skuli láta sig mál eins og súrnun sjávar varða undirstrikar mikilvægi umhverfismala fyrir þá iðnaði sem byggja afkomu sína á nýtingu auðlinda. Það græðir enginn á ósjálfbærri nýtingu auðlinda,” segir Hrönn.

Milliríkjanefnd Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur kallað eftir frekari rannsóknum á súrnun sjávar á norðurslóðum.

„Ísland er á versta mögulega stað þegar súrnun sjávar er annars vegar,” sagði Hrönn í kvöldfréttum Stöðvar 2 í apríl 2014. „ Ólíkt hlýnun jarðar, þar sem við erum kannski á besta stað í heiminum, þá er súrnun sjávar líklega alvarlegri hér en annars staðar. Sjórinn súrnar hratt hér og kalkmyndun er mikil.“

Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, tilkynnti um styrkveitinguna á fundi sem helgaður var súrnun sjávar og samskiptum þjóða. Samtökin munu styðja Hrönn næstu þrjú árin.

Þess má geta að á stofnfundi samtakanna síðastliðið haust veitti Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS, Hrönn hvatningsverðlaun fyrir störf sín.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×